Enski boltinn

Wenger trúir ekki á frekari hádegisvandræði

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Vonandi vöknuðu Wenger og lærisveinar hressir í morgun
Vonandi vöknuðu Wenger og lærisveinar hressir í morgun vísir/getty
Arsenal fékk alls 17 mörk á sig í þremur laugardagshádegisleikjum sínum gegn toppliðunum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á síðustu leiktíð.

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir leiktímann ekki vera ástæða markaveislu andstæðinga Arsenal í hádeginu á laugardögum á síðustu leiktíð.

„Það hefur aldrei hvarflað að mér að leiktíminn sé okkur dýrkeyptur. Það er frammistaðan. Slök frammistaða hefur ekkert með leiktíma að gera,“ sagði Wenger en Arsenal tekur á móti Manchester City í hádeginu í dag.

„Við búum í samfélagi þar sem við leitum að skýringum fyrir öllu. Gleymum ekki að við erum kappsamt fólk og stundum þegar andstæðingurinn er betri, þá tapar þú.

„Þá skiptir engu máli hvort leikið sé að kvöldi eða í hádeginu. Hinir voru einfaldlega betri en við.“

Arsenal tapaði 5-1 fyrir Liverpool í febrúar, 6-0 fyrir Chelsea í mars og 6-3 fyrir Manchester City í desember en Arsenal var á útivelli í öllum þessum leikjum.

Arsenal er á heimavelli í dag gegn City en leikurinn hefst klukkan 11:45 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×