Erlent

Ríkisstjórn Löfvens berst fyrir lífi sínu

Atli Ísleifsson skrifar
Matthias Karlsson, tímabundinn leiðtogi Svíþjóðardemókrata, segir að vonir Svíþjóðardemókrata standi til að Græningjaflokkurinn hverfi úr ríkisstjórn.
Matthias Karlsson, tímabundinn leiðtogi Svíþjóðardemókrata, segir að vonir Svíþjóðardemókrata standi til að Græningjaflokkurinn hverfi úr ríkisstjórn.
Forystumenn Svíþjóðardemókrata tilkynntu nú fyrir stundu að þeir muni styðja fjárlagatillögu borgaralegu flokkanna, en til stóð að greiða atkvæði um frumvarpið í fyrramálið. Því liggur fyrir að litlar sem engar líkur séu á að fjárlagafrumvarp minnihlutastjórnar Jafnaðarmanna og Græningja verði samþykkt í óbreyttri mynd.

Stefan Löfven forsætisráðherra hefur enn ekki tjáð sig um ákvörðun Svíþjóðardemókrata.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að fjórir möguleikar séu í stöðunni fyrir Löfven.

Í fyrsta lagi er mögulegt að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verði dregið til baka og sent aftur til fjárlaganefndar. Þannig geti ríkisstjórnin keypt sér tíma og lagt síðar fram nýtt frumvarp sem nyti stuðnings meirihluta þingmanna. Annar möguleiki er ríkisstjórnin segi af sér og þingforseti leiti til þess sem hann telur líklegastan til að mynda nýja stjórn til að gera einmitt það. Þriðji möguleikinn er að minnihlutastjórnin starfi áfram þrátt fyrir samþykkt fjárlagatillögu borgaralegu flokkanna. Síðasti möguleikinn sé að ríkisstjórnin boði til nýrra kosninga.

Ákvörðunar Svíþjóðardemókrata hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og hefur flokkurinn í raun haldið sænskum stjórnmálum í gíslingu síðustu daga og vikur.

Matthias Karlsson, staðgengill leiðtoga Svíþjóðardemókrata, segir að vonir Svíþjóðardemókrata standi til að Græningjaflokkurinn hverfi úr ríkisstjórn þar sem þeir álíti flokkinn skaðlegan landinu.

Karlsson sagði Svíþjóðardemókrata meðvitaða um þann möguleika að Jafnaðarmenn myndu leita samstarfs við borgaralegu flokkana, sem myndi þar með leiða til að Svíþjóðardemókratar myndu glata oddastöðu sinni. Þetta væri þó áhætta sem flokkurinn væri reiðubúinn að taka.

Svíþjóðardemókratar náðu oddastöðu í þingkosningum í Svíþjóð í haust. Bandalag borgaralegu flokkanna, undir stjórn Fredrik Reinfeldt, misstu meirihluta á þingi í kosningunum og mynduðu í kjölfar Jafnaðarmenn og Græningjar nýja minnihlutastjórn.


Tengdar fréttir

Formaðurinn þjáist af kulnun

Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, fór í veikindaleyfi fyrir rúmum þremur vikum vegna alvarlegra kulnunar í starfi. Starfandi leiðtogi flokksins, Mattias Karlsson, segir Åkesson varla muna eftir þátttöku sinni í kappræðunum fyrir kosningarnar fyrr í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×