Íslenski boltinn

Átjánfaldir Ítalíumeistarar til Íslands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Javier Zanetti lagði skóna á hilluna í vor eftir afar farsælan feril.
Javier Zanetti lagði skóna á hilluna í vor eftir afar farsælan feril. Vísir/Getty
Ljóst er að Stjörnumanna bíður erfitt verkefni í 4. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar, en fyrr í dag kom í ljós að Internazionale frá Ítalíu verður næsti mótherji Garðbæjarliðsins.

Inter er eitt stærsta félagslið í heimi. Liðið var stofnað árið 1908 og er til þessa dags eina liðið sem hefur aldrei fallið úr efstu deild á Ítalíu.

Inter hefur 18 sinnum orðið Ítalíumeistari, þar af fimm sinnum í röð á árunum 2006-2010.

Inter hefur fimm sinnum orðið bikarmeistari á Ítalíu og í þrígang hefur liðið fagnað sigri í Evrópukepnni meistaraliða/Meistaradeild Evrópu, síðast árið 2010, en það tímabil vann liðið einnig ítölsku deildina og ítölsku bikarkeppnina.

Þá hrósaði Inter þrisvar sinnum sigri í Evrópukeppni félagsliða, meðan hún var og hét. Inter vann einnig Intercontinental Cup tvisvar sinnum, auk þess sem ítalska liðið varð heimsmeistari félagsliða 2010.

Argentínumaðurinn Javier Zanetti er leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins, en hann lék 845 leiki á árunum 1995-2014.

Zanetti lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og gegnir nú starfi varaforseta Inter. Í júní var treyjunúmer hans, númer fjögur, lagt til hliðar, en aðeins einum öðrum leikmanni í sögu Inter hefur hlotnast sá heiður: Giacinto Facchetti, sem spilaði í treyju númer þrjú.

Giuseppe Meazza er markahæsti leikmaður í sögu Inter, en hann skoraði 284 mörk á árunum 1927-1940 og 1946-1947.

Inter og AC Milan deila heimavelli, en hann er nefndur eftir Meazza sem lék með báðum liðum á sínum tíma. Völlurinn gengur þó jafnan undir heitinu San Siro.


Tengdar fréttir

Stjörnumenn að endurskrifa sögubækurnar

Ekkert íslenskt félag hefur byrjað eins vel í Evrópukeppni og lið Stjörnunnar. Stjarnan fylgdi eftir dramatískum endurkomusigri á skoska liðinu Motherwell með 1–0 sigri á pólska liðinu Lech Poznan í fyrrakvöld.

Stjarnan mætir Inter

Stjarnan mætir ítalska stórveldinu Inter í undankeppni Evrópudeildarinnar en dregið var í hádeginu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×