Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Maður er gráti næst af gleði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Páll fagnar í Poznan í kvöld með Garðari Jóhannssyni.
Rúnar Páll fagnar í Poznan í kvöld með Garðari Jóhannssyni. vísir/Adam Jastrzebowski
„Við erum alveg hriklega ánægðir og stoltir og maður er bara gráti næst af gleði yfir þessu,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunar, við Vísi í kvöld, en hans menn gerðu sér lítið fyrir og komust áfram í umspil Evrópudeildarinnar í kvöld með markalausu jafntefli í Poznan.

„Þeir skora ekki á okkur mark í tveimur leikjum. Þetta er alveg ótrúlegt. Við munum aldrei upplifa stemningu eins og var á vellinum í dag aftur. Það var magnað að standast þessa raun,“ sagði Rúnar Páll.

Stjarnan lagði eðlilega upp með sterkan varnarleik í kvöld sem virkaði heldur betur og þá var Ingvar Jónsson magnaður í markinu.

„Það gekk allt upp í leiknum. Við þurftum líka þannig leik til að komast áfram. Framherjinn okkar var bara fyrir aftan miðlínu og við ýttum þeim út á kantana. Þaðan komu fyrirgjafir sem strákarnir skölluðu frá eða Ingvar greip,“ sagði Rúnar Páll sem hrósaði markverðinum sérstaklega.

„Ingvar hélt okkur inn í leiknum fyrstu fimm til tíu mínúturnar. Hann varði alveg ótrúlega. Það var alveg ótrúlega mikilvægt að fá ekki á sig mark í byrjun og hann kom í veg fyrir það. En síðan voru þetta einu alvöru færin þeirra. Við fengum eiginlega besta færið þegar Heiðar Ægisson komst einn í gegn.“

Rúnar Páll var í sjöunda himni þegar Vísir ræddi við hann eftir leik í kvöld. Hann átti varla til orð til að lýsa hversu glaður hann var.

„Við erum bara í skýjunum. Við ætlum að njóta þessarar stundar, sem er svo stór fyrir Stjörnuna og fótboltann, í botn. Við erum núna búnir að fara í gegnum þrjár hindranir, hver erfiðari en sú næsta, og vinnum Lech Poznan sem er stórlið. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×