Íslenski boltinn

Íris Dögg varði tvö víti og kom Fylki í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íris Dögg Gunnarsdóttir
Íris Dögg Gunnarsdóttir Vísir/Daníel
Íris Dögg Gunnarsdóttir var hetja Pepsi-deildar liðs Fylkis í kvöld þegar hún varði tvær vítaspyrnur í vítakeppni þegar Fylkir sló 1. deildarlið KR út úr átta liða úrslitum Borgunarbikars kvenna í fótbolta.

Fylkir og KR gerðu 2-2 jafntefli í leiknum sjálfum en staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma. Það er óhætt að segja að vítin hafi verið í aðalhlutverki í leiknum því þrjú af fjórum mörkum leiksins komu af vítapunktinum og úrslitin réðust síðan í vítakeppni.

Fylkisliðið vann vítakeppnina 3-2 en KR-liðið klikkaði á þremur vítum og Fylkir einni. Íris Dögg varði víti frá Sigríði Maríu Sigurðardóttur og Söru Lissy Chontosh en KR skaut yfir úr einu víta sinna.

Fyrr í kvöld komst Stjarnan einnig í undanúrslit en hinir tveir leikir átta liða úrslitanna fara fram á morgun þegar Valur tekur á móti Breiðbliki og Eyjakonur fara í heimsókn á Selfoss.

Margrét María Hólmarsdóttir skoraði bæði mörk KR úr vítaspyrnum en þetta voru fyrstu mörkin sem Íris Dögg Gunnarsdóttir fær á sig síðan að Fylkir samdi við landsliðsmarkvörðinn Þóru B. Helgadóttur í byrjun júní.

Íris Dögg hafði haldið marki sínu hreinu í 436 mínútur í deild og bikar þegar hún fékk á sig fyrra markið. Anna Björg Björnsdóttir kom Fylki í 1-0 með marki úr víti á 10. mínútu en Margrét María jafnaði metin úr öðru víti á 74. mínútu. Anna Björg fékk annað víti á 80. mínútu en tókst ekki að skora úr því.

Leikurinn endaði 1-1 og því þurfti að framlengja leikinn. Margrét María kom KR yfir úr öðru víti sínu í leiknum á 100. mínútu en Ruth Þórðar Þórðardóttir tryggði Fylki vítaspyrnukeppni þegar hún jafnaði metin þremur mínútum fyrir lok framlengingarinnar.  

Upplýsingar um markaskorara og gang mála í leiknum eru fengnar frá fótboltavefsíðunni fótbolti.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×