Íslenski boltinn

Kemur ekki til greina að sitja á bekknum

Valtýr Björn Valtýsson skrifar
„Ég reyni helst ekki að hugsa um þetta. Ég tek bara einn leik í einu og vona það besta,“ segir Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Fylkis í Pepsi-deild kvenna, en þessi 24 ára stúlka hefur farið á kostum fyrir aftan sterka Fylkisvörnina í upphafi tímabils.

Íris Dögg hefur haldið hreinu í fimm af sex deildarleikjum tímabilsins, en það eru aðeins Íslandsmeistarar Stjörnunnar sem hafa skorað á hana. Er komin pressa á hana að halda hreinu í hverjum leik?

„Fólk segir það alltaf við mig en ég reyni helst ekki að hugsa út í þetta. Ég reyni bara að gera mitt besta og vonandi held ég hreinu,“ segir Íris Dögg.

Þrátt fyrir þennan magnaða árangur nýliðanna og hennar sjálfrar á Íris Dögg líklega bara tvo deildarleiki eftir með Fylki.

Árbæjarliðið hefur tryggt sér þjónustu landsliðsmarkvarðarins Þóru B. Helgadóttur og er tæplega að fara að geyma hana á bekknum. Hvernig horfir það við Írisi?

„Það hefur verið rosalega góð hvatning til að skoða hlutina hjá sjálfri sér, gera sitt besta og auglýsa sig smá,“ segir hún sallaróleg en Írís býst samt ekki við að vera mikið lengur hjá Fylki.

„Það má ekkert lið á Íslandi hafa tvo svona góða markmenn þannig það verður eitthvað að gerast,“ segir hún og brosir.

„Það getur vel verið að ég fari [þegar glugginn opnast]. Ég hef reynt að standa mig vel þannig vonandi opnast einhverjir gluggar hjá mér.“

„Ég vil halda mér í toppbaráttunni í Pepsi-deildinni en það hefur enginn haft samband ennþá. Mér líður vel hjá Fylki og ég vil ekki fara í neinum leiðindum en ég vil ekki missa af þessu tækifæri og sitja á bekknum það sem eftir er af sumrinu. Það kemur ekki til greina,“ segir Íris Dögg Gunnarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×