Erlent

Átta ára barn lést í ódæðinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan í Boston stendur vörð víðsvegar um borgina.
Lögreglan í Boston stendur vörð víðsvegar um borgina. Mynd/ AFP.
Nú er ljóst að minnst þrír fórust í sprengjuárásum í Boston í Massachusettes í gær. Á meðal þeirra er átta ára gamalll drengur. Yfir 130 særðust í árásinni, þar af 30 lífshættulega og götur í Boylston stræti voru alblóðugar eftir árásirnar.

Frídagur var í Boston í gær og fór Boston maraþon fram þegar sprengjurnar sprungu. Þær voru tvær og sprungu með örskömmu millibili. Þriðja sprengingin varð svo í bókasafni í Boston, en ekki er ljóst hvort að sú sprengja er tengd hinum tveimur. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í ávarpi sem hann flutti í gærkvöldi að yfirvöld myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að finna hver stæði að baki ódæðinu. Enginn hefur lýst tilræðunum á hendur sér, en sprengjurnar eru rannsakaðar sem möguleg hryðjuverk.

Hátt í 40 Íslendingar tóku þátt í maraþoninu

Þrjátíu og fimm Íslendingar tóku þátt í maraþoninu í Boston og urðu varir við að sprengjurnar sprungu. Einn þeirra, Magnús Þór Jónsson, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að allir Íslendingarnir væru heilir á húfi. Hann sagði að þau hefðu öll verið beðin um að halda kyrru fyrir á hótelinu sem þau gistu á. Mikil skelfing ríkti í allri borginni og hann hefði aldrei upplifað neitt þessu líkt. Síðar um kvöldið hittust allir Íslendingarnir til þess að fara yfir stöðuna.

Áhrif á fjármálamarkaði

Markaðir í Asíu tóku dýfu í nótt eftir að fréttist af sprengingunum. Hlutabréfavísitölur féllu um tvö prósent og hlutabréf í Suður Kóreu og Ástralíu féllu einnig. Verð á olíu og gulli lækkaði einnig mikið. Markaðir í Bandaríkjunum lækkuðu líka í gærkvöld, en markaðir þar í landi voru um það bil að loka þegar sprengingin varð. 

Myndband af fyrstu sprengingunni, tekið af vef Boston.com


Tengdar fréttir

Sprenging í Boston

Að minnsta kosti þrír eru látnir eftir að tvær mjög kraftmiklar sprengjur sprungu í Boston nú fyrir stundu. Fjölmargir eru slasaðir. Þetta hefur FOX sjónvarpsstöðin eftir lögreglunni í borginni.

Barack Obama heitir fullum stuðningi við íbúa í Boston

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er í stöðugum samskiptum við yfirvöld í Massachusett vegna sprenginganna sem þar urðu í kvöld og hefur falið ríkisstjórn sinni að veita alla þá aðstoð sem nauðsynleg er til þess að rannsaka og bregðast við. Talið er að minnst tvær, jafnvel þrjár sprengjur hafi sprungið í Boston í kvöld. Þar fór fram maraþon og voru fjölmargir Íslendingar í borginni.

"Mikil ringulreið"

"Það eru mjög margir hérna úti á götu og mikil ringulreið,“ segir Ragna Sif Þórarinsdóttir, sem stundar nám í Boston University. Þrjár sprengjur sprungu í borginni í kvöld, tvær við marklínu maraþonsins og ein á JFK bókasafninu sem er í nágrenninu.

Um 100 manns fluttir á spítala

Um 100 manns hafa verið fluttir á spítala í Boston vegna meiðsla eftir þrjár sprengjur sem hafa sprungið þar í borg í kvöld. Fólkið hlaut margvísleg meiðsl. Að minnsta kosti tveir eru látnir.

Tvítugur Sádi Arabi grunaður um ódæðið

Tvítugur karlmaður frá Sádi - Arabíu hefur verið handtekinn grunaður um að standa að baki sprengingunum í Boston. Þetta fullyrðir fréttavefur New York Post. Samkvæmt blaðinu eru hann í gæslu á ónefndum spítala í Boston. Fox News segir að maðurinn hafi brunnið illa. Maðurinn mun hafa veirð handtekinn skömmu eftir að fyrri sprengjan sprakk.

"Þetta er hræðilegt"

"Þetta er bara hræðilegt ástand hérna,“ segir Erla Gunnarsdóttir hlaupari sem tók þátt í Boston Maraþoninu í dag.

Íslendingarnir heilir á húfi - "Þetta er skelfing"

"Eins og staðan er núna þá held ég að það sé búið að ná í alla Íslendinga og þeir eru á heilir á húfi,“ segir Magnús Þór Jónsson, sem er einn af þrjátíu og fimm Íslendingum sem tóku þátt í maraþoninu í Boston í kvöld.

"Við munum komast að því hverjir gerðu þetta og af hverju“

"Við munum komast að því hverjir gerðu þetta og við munu láta viðkomandi sæta ábyrgð,“ sagði Barack Obama þegar hann ávarpaði þjóð sína í Hvíta húsinu klukkan tíu mínútur yfir tíu í kvöld. Þá tók hann skýrt fram að rannsakað yrði hvers vegna viðkomandi gerðu það sem þeir gerðu.

Leik Celtics og Pacers aflýst

NBA deildin aflýsti núna í kvöld leik sem til stóð að færi fram á milli Boston Celtics og Indiana Pacers á morgun. Samkvæmt dagskrá átti leikurinn að fara fram í TD Garden, heimavelli Boston. Bæði liðin munu því leika 81 leik á leiktímabilinu í stað 82 eins og venja er. Ástæðan er sprengingarnar í Boston í dag. Í yfirlýsingunni frá NBA deildinni er þolendum sprenginganna vottuð samúð. Rajon Rondo, einn af byrjunarliðsmönnum í Boston sagði á Twitter núna í kvöld að hann myndi biðja fyrir þolendunum. Shaquille O' Neal, sem lék með Boston til skamms tíma, sagði einnig að hugur hans væri hjá þolendunum.

Tvær sprengjur í viðbót gerðar óvirkar

Lögreglumenn hafa fundið að minnsta kosti tvær sprengjur í viðbót á svæðinu, þar sem tvær öflugar sprengjur sprungu í Boston fyrr í kvöld. Þær hafa verið gerðar óvirkar, að því er fram kemur á vef AP fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×