Enski boltinn

Hættið að reyna að vera Roy Keane

Roy Keane, stjóri Sunderland
Roy Keane, stjóri Sunderland NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Dwight Yorke hefur skorað á félaga sína í liði Sunderland að hætta að reyna að vera Roy Keane á knattspyrnuvellinum með því að tækla í allar áttir eins og óðir menn. Sunderland tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Keane um helgina og þótti Yorke félagar sínir taka full harkalega á andstæðingunum.

"Það þýðir ekkert að henda sér í glórulausar tæklingar úti um allan völl þó við séum að spila fyrir Roy Keane," sagði Yorke, sem sjálfur spilaði með Keane hjá Manchester United þegar hann vann sér orð sem einn harðasti leikmaðurinn í bransanum.

"Auðvitað verða menn að leggja sig fram á vellinum en menn verða líka að nota höfuðið. Ég er viss um að sumir stuðningsmanna okkar vilja sjá blóðuga baráttu á vellinum, en allt er gott í hófi. Við þurfum ekki að vera eins og Roy Keane þó við spilum undir hans stjórn, en ég veit að það er fullt af liðum þarna úti sem vilja vinna okkur bara af því við erum liðið hans Roy Keane. Hann vann flest þau einvígi sem hann háði á knattspyrnuvellinum þegar hann var leikmaður og því sjá menn sér leik á borði nú þegar hann er orðinn stjóri," sagði Yorke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×