Veður

Slær á­fram í storm á suður­ströndinni

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu núll til sex stig, en um eða undir frostmarki á Norður- og Austurlandi.
Hiti verður á bilinu núll til sex stig, en um eða undir frostmarki á Norður- og Austurlandi. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikið lægðasvæði suður af landinu hefur viðhaldið austanáttum frá því í síðustu viku og mun halda því áfram fram yfir næstu helgi. Síðasta sólarhringinn hefur verið austanhvassviðri eða stormur með suðurströndinni og heldur það áfram í dag.

Á vef Veðurstofunnar segir að í nótt hafi mælst 30 metrar á sekúndu á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en slíkar aðstæður geta verið varasamar fyrir bíla sem taka á sig mikinn vind.

„Einnig gæti orðið hvasst og hviðótt við Esjuna upp úr hádegi og einhver væta fallið um tíma á suðvesturhorninu.

Það þykknar upp á vestanverðu landinu í dag, bætir í úrkomu Sunnanlands og áfram falla él eða slydduél fyrir austan. Hiti um frostmark fyrir norðan, en upp í 6 stig sunnan heiða.

Á morgun dregur hægt og rólega úr vindi og úrkomu, það léttir til vestanlands og kólnar lítillega á landinu öllu,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan og norðaustan 8-15 m/s, en 15-23 með suður- og suðausturströndinni. Bjart með köflum á vestanverðu landinu, en él eða skúrir fyrir austan. Hiti í kringum frostmark, en allt að 6 stigum sunnantil.

Á fimmtudag: Minnkandi austanátt, 5-13 m/s síðdegis, hvassast syðst. Skúrir eða slydduél, en þurrt að mestu norðvestantil. Hlýnar lítilllega.

Á föstudag: Austlæg átt 5-10 m/s og dálítil él eða slydduél, en þurrt vestanlands. Hiti um frostmark, en víða vægt frost norðanlands.

Á laugardag og sunnudag: Norðaustan- og austanátt og rigning eða slydda, einkum suðaustanlands, en þurrt norðvestantil. Hiti 1 til 5 stig.

Á mánudag: Útlit fyrir áframhaldandi austlægar áttir og úrkomu í flestum landshlutum. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×