Kær­kominn sigur í fyrsta deildar­leik Rosenior með Chelsea

Joao Pedro kom Chelsea á bragðið með fyrsta marki leiksins í dag.
Joao Pedro kom Chelsea á bragðið með fyrsta marki leiksins í dag. Vísir/Getty

Fyrir leik dagsins hafði Chelsea farið í gegnum fimm leiki í deildinni án þess að vinna leik en leikurinn gegn Brentford var sá fyrsti hjá liðinu í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn Liam Rosenior. 

Á sama tíma hafði Brentford ekki bragðað á ósigri í öllum keppnum síðan þann 17. desember á síðasta ári þegar að liðið laut í lægra haldi gegn Manchester City í enska deildarbikarnum. Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson var á meðal varamanna hjá Brentford í dag og kom ekkert við sögu.

Heimamenn í Chelsea gátu fagnað strax á 26.mínútu í dag þegar að Joao Pedro kom þeim yfir eftir stoðsendingu frá Enzo Fernández. Var um að ræða sjöunda mark kappans fyrir þá bláklæddu í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili. 

Þegar komið var fram á 75.mínútu fengu heimamenn svo vítaspyrnu þegar að Caomin Kelleher, markvörður Brentford, braut á Liam Delap innan vítateigs. Cole Palmer tók vítaspyrnuna fyrir Chelsea og kom boltanum af miklu öryggi fram hjá Kelleher og í netið. Staðan orðin 2-0 fyrir Chelsea.

Reyndust það lokatölur á Stamford Bridge í dag. Kærkominn sigur Chelsea sem vippar sér upp fyrir Brentford í 6.sæti deildarinnar. Þar eru lærisveinar Rosenior með 34 stig. Brentford vermir 7.sæti með einu stigi minna. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira