Enski boltinn

Lík­legastir til að taka við United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nokkrir þeirra sem þykja líklegir til að taka við Manchester United.
Nokkrir þeirra sem þykja líklegir til að taka við Manchester United. vísir/getty

Manchester United er í stjóraleit eftir að Ruben Amorim var sagt upp störfum hjá félaginu. Ýmsir stjórar eru orðaðir við United.

Amorim var látinn taka pokann sinn í morgun. Hann stýrði United í fjórtán mánuði. Undir hans stjórn enduðu Rauðu djöflarnir í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Oliver Glasner, knattspyrnustjóri Crystal Palace, er efstur á lista veðbanka yfir líklegustu eftirmenn Amorims. Hann hefur gert stórgóða hluti á Selhurst Park og undir hans stjórn varð Palace meðal annars bikarmeistari í fyrra. Áður en hann fór til Palace stýrði Austurríkismaðurinn Eintracht Frankfurt og gerði liðið að Evrópudeildarmeisturum 2022.

Samningur Glasners við Palace rennur út í sumar og afar ólíklegt þykir að hann verði áfram hjá félaginu.

Enzo Maresca, sem var rekinn frá Chelsea á nýársdag, er einnig orðaður við United. Hann hefur sömuleiðis verið nefndur sem mögulegur eftirmaður Peps Guardiola hjá Manchester City. Hann var áður aðstoðarmaður Guardiolas hjá City.

Gareth Southgate, sem stýrði enska landsliðinu í átta ár, er einnig ofarlega á lista veðbanka. Hann hefur bara einu sinni stýrt félagsliði á ferlinum en hann var stjóri Middlesbrough 2006-09. Undir hans stjórn féll Boro úr ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2008-09.

Þjálfari bandaríska landsliðsins, Mauricio Pochettino, hefur lengi verið orðaður við stjórastarfið hjá United. Hann myndi þó líklega ekki getað tekið við United fyrr en eftir heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó í sumar.

Unai Emery, sem hefur gert frábæra hluti með Aston Villa, er sömuleiðis ofarlega á lista veðbanka og þar eru einnig tveir aðrir Spánverjar; Andoni Iraola hjá Bournemouth og Xavi, fyrrverandi leikmaður og stjóri Barcelona.

Á lista veðbanka er einnig óvænt nafn; Laurent Blanc. Frakkinn lauk leikmannaferlinum með United og lék með liðinu á árunum 2001-03. Hann var síðast við stjórnvölinn hjá Al-Ittihad í Sádi-Arabíu en hefur einnig stýrt Bordeaux, franska landsliðinu, Paris Saint-Germain, Al-Rayyan og Lyon.

Ole Gunnar Solskjær er einnig nefndur til sögunnar en hann stýrði United á árunum 2018-21. Norðmaðurinn var síðast við stjórnvölinn hjá Besiktas í Tyrklandi.

Darren Fletcher tekur við United til bráðabirgða og stýrir liðinu gegn Burnley á miðvikudaginn. Rauðu djöflarnir eru í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig.


Tengdar fréttir

Sendi United Amorim sneið að skilnaði?

Manchester United greindi í morgun frá því að Ruben Amorim hefði verið látinn fara frá félaginu. Orðalagið í tilkynningu félagsins vekur athygli.

„Hef á til­finningunni að hann hafi talað af sér þarna“

Arnar Gunnlaugsson segir að Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi eflaust ígrundað vel og vandlega ummælin sem hann lét falla á blaðamannafundi í gær. Ummælin hafa vakið mikla athygli og spurningar um framtíð Amorim.

„Ég kom hingað til að vera stjóri, ekki til að vera þjálfari“

Ruben Amorim aðalþjálfari Manchester United hefur skorað á yfirmenn sína hjá Manchester United að leyfa sér að sinna starfi sínu án afskipta. Hann bauð upp á mjög sérstakan blaðamannafund eftir að liðið tapaði stigum á Elland Road í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Sesko var rangstæður og Cunha skilur ekkert

Matheus Cunha gat ekki glaðst mikið yfir stiginu sem Manchester United sótti gegn Leeds í 20. umferð ensku úrvaldsdeildarinnar. Hann skilur líka ekkert í því að mark hafi verið dæmt af honum þegar Benjamin Sesko var sá sem stóð í rangstöðunni.

Sanngjarnt jafntefli eftir stangarskot og mikla spennu

Leeds United og Manchester United gerðu 1-1 jafntefli í 20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Mörkin voru skoruð með skömmu millibili í seinni hálfleik og Matheus Cunha komst nálægt því að setja sigurmarkið, sitt annað mark, en skallaði í stöngina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×