Veður

Bjart­viðri suðvestan­til en hvasst suðaustan­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður í kringum frostmark.
Hiti á landinu verður í kringum frostmark. Vísir/Vilhelm

Djúpa lægðin sem hefur blásið hressilega frá hjá okkur síðustu daga stefnir nú á Skotland og er farinn að grynnast.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að það verði norðaustlæg átt í dag, yfirleitt kaldi eða stinningskaldi en að verði hvassir vindstrengir á Suðausturlandi. Hiti verður um eða yfir frostmarki.

„Slydda eða snjókoma norðaustan- og austanlands, jafnvel rigning á Austfjörðum, en stöku él norðvestantil og bjartviðri um landið suðvestanvert.

Á morgun og á fimmtudag er útlit fyrir áframhaldandi norðaustanátt með éljum eða lítilsháttar snjókomu norðan- og austanlands, en lengst af þurru á Suður- og Vesturlandi. Hiti um eða undir frostmarki,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðaustan 8-15 m/s, hvassast suðaustantil. Víða él, en bjart með köflum á Suður- og Vesturlandi. Hiti um eða undir frostmarki.

Á fimmtudag og föstudag: Norðaustan 5-13 og snjókoma eða él um landið norðan- og austanvert. Hiti breytist lítið.

Á laugardag: Norðaustanátt og lítilsháttar rigning eða slydda með köflum. Hiti um eða yfir frostmarki.

Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir norðaustanátt með dálitlum skúrum eða éljum norðan- og austanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×