Erlent

Út­skýrði næstu skref fyrir Krist­rúnu og kollegum

Agnar Már Másson skrifar
Selenskí ræðir símleiðis við þjóðarleiðtoga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
Selenskí ræðir símleiðis við þjóðarleiðtoga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Forsetaembætti Úkraínu

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sat fjarfund með forsætisráðherra Íslands í morgun auk annarra þjóðarleiðtoga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Hann segist hafa útskýrt næstu skref Úkraínumanna í friðarviðræðum. Forsætisráðherra Íslands segir nauðsynlegt að Evrópa sé við samningaborðið, en Bandaríkjamenn vilja að Úkraínumenn samþykki friðartillögur sem samdar voru af ráðamönnum í Moskvu og Washington.

Úkraínuforsetinn greinir frá því í færslu á samfélagsmiðlum að hann hafi átt fjarfund með leiðtogum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.

Á mynd sem úkraínska forsetaembættið birti á Facebook má sjá Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra Íslands í glugga á tölvuskjá Úkraínuforsetans.

„Ég sagði þeim frá vinnu okkar með bandarískum og evrópskum félögum okkar um að binda enda á stríðið og um okkar næstu skref,“ skrifar forsetinn.

Af tölvuskjá Selenskís.Forsetaembætti Úkraínu

Kristrún og Selensí sátu fundinn með Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs, Eviku Siliņa forsætisráðherra Lettlands, Gitanas Nausėda forsætisráðherra Litháens, Alexander Stubb Finnlandsforseta og Petteri Orpo forsætisráðherra Finnlands auk Kristen Michal forseta Eistlands.

„Frá fyrstu dögum þessa stríðs hefur Úkraína leitað að virðulegum friði eins og enginn annar, og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vinna eins markvisst og mögulegt er,“ skrifar forsetinn en í gær gaf hann til kynna að bandamenn Úkraínumanna, væntanlega Bandaríkjamenn þar helst, reyndu að þvinga þá til að gera slæmt samkomulag við Rússa, sem hefðu reynt að sigra Úkraínu í ellefu ár.

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa gefið til kynna að þeir muni slíta á flæði upplýsinga og vopna, sem Úkraínumenn og/eða önnur ríki Evrópu hafa keypt af Bandaríkjamönnum, skrifi Selenski ekki fljótt undir friðaráætlun sem skrifuð var af bandarískum og rússneskum erindrekum.

„Ég þakka öllum leiðtogum fyrir stuðning þeirra við Úkraínu og Úkraínumenn, baráttu okkar fyrir frelsi, fullveldi og landhelgi. Við metum mikils samstöðuna og skilninginn á þeim afstöðum sem eru grundvallaratriði fyrir Úkraínu,“ skrifar Selensí.

Tuttugu og átta liða friðaráætluninni hefur verið lýst sem „óskalista“ Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, og inniheldur þó nokkra liði sem Úkraínumenn hafa áður sagt að þeir geti ekki sætt sig við. Þá eru aðrir liðir í friðaráætluninni sem munu reynast ríkjum Evrópu erfiður biti að kyngja

Kristrún greninir einnig frá fundinum á Facebook: „Átti samtal í morgun við Vólódímír Selenskí forseta Úkraínu, ásamt leiðtogum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Þessi hópur stendur þétt við bakið á Úkraínu. Það er nauðsynlegt að Evrópa sé við samningaborðið. Barátta Úkraínu er barátta okkar allra.“

Fréttin hefur verið uppfærð með færslu Kristrúnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×