Enski boltinn

Sjáðu af hverju vörn Arsenal er í al­gjörum sér­flokki

Sindri Sverrisson skrifar
Hinn brasilíski Gabriel á stóran þátt í því hve pottþétt vörn Arsenal hefur verið.
Hinn brasilíski Gabriel á stóran þátt í því hve pottþétt vörn Arsenal hefur verið. Getty/Alex Pantling

Arsenal trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta og það er ekki síst að þakka afar áreiðanlegum og öflugum varnarleik liðsins. Hér má sjá brot af því besta frá varnarmönnum liðsins.

Arsenal hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk í fyrstu átta umferðunum, eða helmingi færri mörk en næstu lið sem eru Manchester City og Sunderland. 

Arsenal-menn hafa svo skorað fimmtán mörk og eru með bestu markatöluna, auk þess að vera þremur stigum á undan Manchester City á toppi deildarinnar.

Það er ekki á hverjum degi sem teknir eru saman hápunktar í varnarleik en af nægu er að taka hjá Arsenal á leiktíðinni eins og sjá má í syrpunni hér að neðan.

Klippa: Frábær vörn Arsenal

Vörn Arsenal hefur raunar verið sú besta í öllum stóru deildunum í Evrópu það sem af er leiktíð.

Arsenal vann afgerandi 4-0 sigur á spænska stórliðinu Atlético Madrid í Meistaradeild Evrópu í vikunni og fylgdi þar með eftir sitthvorum 2-0 sigrinum á Athletic Bilbao annars vegar og Olympiacos hins vegar í keppninni fram að því. Arsenal er því með markatöluna 8-0 eftir þrjá leiki í Meistaradeildinni.

Alls hefur Arsenal spilað tólf leiki í öllum keppnum og aðeins fengið á sig þrjú mörk, öll í ensku úrvalsdeildinni, en liðið vann 2-0 sigur á Port Vale í enska deildabikarnum.

Arsenal á fyrir höndum snúið próf um helgina en liðið tekur á móti Crystal Palace á sunnudaginn klukkan 14. Arsenal, Palace og Bournemouth eru einu liðin sem aðeins hafa tapað einum leik það sem af er leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×