Upp­gjörið: ÍBV - ÍA 0-2 | Fjar­lægjast falls­væðið með enn einum sigrinum

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Viktor Jónsson skoraði síðara mark Skagamanna í dag.
Viktor Jónsson skoraði síðara mark Skagamanna í dag. Vísir/Anton Brink

ÍA lagði ÍBV í Vestmannaeyjum í dag 0-2 og eru að fjarlægjast fallsvæðið. Gísli Laxdal Unnsteinsson og Viktor Jónsson skoruðu mörkin í dag og Skagamenn sigldu með stigin í heimahöfn og eru komnir fimm stigum frá fallsvæðinu.

Það var ansi vindasamt í Vestmannaeyjum fyrir leikinn og ljóst að veðrið myndi hafa áhrif á leikinn. ÍBV hafði vindinn í bakið í fyrri hálfleik og náði að nýta sér það að einhverju leyti í föstum leikatriðum, en Árni Marinó Einarsson varði vel og hélt ÍBV frá marki.

Það var mikið jafnræði með liðunum sem börðust af mikilli ákefð, en lítið af hættulegum færum sem sköpuðust.

Hættulegasta færi fyrri hálfleiks kom á 42. mínútu þegar Oliver Heiðarsson komst einn í gegn, en Árni Marinó varði laglega í marki ÍA.

Gísli Laxdal Unnarsson braut ísinn á síðustu mínútu í uppbótartíma með skoti fyrir utan teig. 0-1 fyrir ÍA og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Það var svipað uppi á teningnum í síðari hálfleik. Bæði lið börðust vel og náðu að skapa sér ágætis færi.

Skagamenn tvöfölduðu forystu sína á 75. mínútu eftir mistök hjá Marcel Zapytowski í marki ÍBV. Marko Vardic vippaði boltanum fyrir markið og Marcel reyndi að grípa boltann en missti hann, og auðvelt fyrir Viktor Jónsson sem potaði boltanum í markið.

Þriðji sigur ÍA í úrslitakeppni neðri hlutans og sigla Skagamenn heim með þrjú stig í farteskinu.

Atvik leiksins

Annað mark Skagamanna þegar Marcel missir boltann í marki heimamanna og Viktor Jónsson nær að pota boltanum í markið.

Stjörnur og skúrkar

Árni Marinó Einarsson átti frábæran leik fyrir Skagamenn í dag. Maður leiksins að mínu mati.

Marcel Zapytowski var flottur í markinu fyrir ÍBV í dag en gerði stórfelld mistök í öðru marki Skagamanna þegar hann missti boltann úr höndum sér.



Stemning og umgjörð

Mikil stemning á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Það heyrðist vel í Skagamönnum á leiknum eða í raun einungis í Skagamönnum sem mættu og sungu allan leikinn.

Dómarar

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson var á flautunni í dag, honum til halds og trausts voru Gylfi Már Sigurðsson og Guðmundur Ingi Bjarnason. Engin vafa atriði að mínu mati og leikurinn vel dæmdur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira