Íslenski boltinn

Heimir yfir­gefur FH að tíma­bilinu loknu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir hættir hjá FH í haust.
Heimir hættir hjá FH í haust. Vísir/Viktor Freyr

Heimir Guðjónsson mun hætta sem þjálfari FH þegar tímabilinu í Bestu deild karla í fótbolta lýkur. Frá þessu greinir félagið á samfélagsmiðlum sínum nú í kvöld, þriðjudag. Samningur Heimis rennur út að tímabilinu loknu og hefur verið ákveðið að framlengja hann ekki.

Heimir lék lengi vel með FH áður en hann tók við liðinu á sínum tíma þegar FH var besta lið landsins ár eftir ár. Eftir að þjálfa Val og í Færeyjum sneri Heimir aftur í Hafnafjörðinn eftir erfitt tímabil liðsins árið 2022.

Fékk hann „það verkefni að koma á stöðugleika hjá félaginu. Undir hans stjórn hefur liðið síðustu þrjú ár tryggt sér sæti í efri hluta deildarinnar, í samræmi við markmið félagsins,“ segir í tilkynningu Fimleikafélagsins.

„Ferill Heimis hjá Fimleikafélaginu er einstakur. Hann hefur bæði sem leikmaður og þjálfari markað djúp spor í sögu FH og á hann svo sannarlega heiðurinn af fjölmörgum af stærstu augnablikum félagsins. Hann er einn af sönnum Risum FH,“ segir einnig í tilkynningunni áður en Heimi er þakkað fyrir „ómetanlegt framlag og einstakt samstarf í rúm 25 ár.“

FH er í 5. sæti Bestu deildar karla með 32 stig, fjórum minna en Breiðablik sem er sæti ofar, þegar þrjár umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×