Frá þessu greindi Trump við blaðamenn í dag. Hann impraði þó á því að hann teldi „ekkert of nauðsynlegt“ að ná slíku samkomulagi.
„Við ætlum að funda með þeim í næstu viku, með Íran. Mögulega skrifum við undir samning, ég veit það ekki. Fyrir mér er þetta ekkert stórmál. Þeir ráku sitt stríð, börðust, og nú eru þeir snúnir aftur í sinn heim. Það gildir mig einu hvort við komumst að samkomulagi eða ekki,“ sagði Trump á blaðamannafundi í Haag í dag, en CNN greinir frá.
Hann sagði að ríkisstjórnin gerði sömu kröfur og hún sóttist eftir áður en spennan stigmagnaðist í Mið-Austurlöndum fyrr í mánuðinum. Samningur væri samt sem áður óþarfi þar sem kjarnorkuáætlun Írana væri hvort sem er eyðilögð eftir árásir Bandaríkjahers um helgina.
Telur allt saman eyðilagt
Trump gaf lítið fyrir skýrslu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna þar sem fram kom að árásirnar hafi aðeins seinkað kjarnorkuvopnaáætlunum Írana um nokkra mánuði, en ekki gert út um þær eins og hann og fleiri hafa fullyrt. Aftur á móti væru öll skotmörk aðgerðarinnar gjöreyðilögð.
„Við viljum ekki kjarnorku, en við eyðilögðum kjarnorkuna. Með öðrum orðum er hún gereyðilögð,“ sagði hann við blaðamenn í dag.
Vopnahlé milli Írana og Ísraela sem tók gildi í gær virðist enn vera í gildi. Bæði ríki sökuðu hvort annað um brot á vopnahléssamningum skömmu eftir að vopnahlé tók gildi í gær. Brotin reittu Trump til reiði, sem ámælti báðar hliðar. Síðan þá virðast bæði ríkin hafa virt vopnahléið.