City tapaði 2-0 fyrir Juventus í Meistaradeild Evrópu í gær. Englandsmeistararnir hafa tapað sjö af síðustu tíu leikjum sínum.
Capello var sérfræðingur Sky á Ítalíu um leikinn en fyrir hann skaut hann hressilega á Guardiola.
„Guardiola er frábær þjálfari en hann er of hrokafullur. Stundum hefur hann tapað titlum því hann vildi sanna að hann sé sá sem vinnur þá en ekki leikmennirnir svo hann tók lykilmenn út úr liðinu fyrir stóra leiki,“ sagði Capello.
„Að mínu mati var það tilraun til að stela sviðsljósinu og eigna sér heiðurinn á kostnað leikmannahópsins.“
Guardiola hefur aldrei gengið í gegnum jafn erfiða tíma á stjóraferlinum og núna. Fyrir þetta afleita gengi City hafði hann mest tapað þremur leikjum í röð á ferlinum.
City er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig, átta stigum á eftir toppliði Liverpool sem á leik til góða. Þá er liðið í 22. sæti Meistaradeildarinnar með átta stig eftir sex leiki. Liðin í sætum 9-24 fara í umspil um sæti í sextán liða úrslitum keppninnar.