Erlent

Þekktur svika­hrappur kemur Trump í sam­band við rappara

Jón Þór Stefánsson skrifar
Teymi Trumps leitar til Billy McFarland þegar það þarf að ná í ákveðnar stjörnur.
Teymi Trumps leitar til Billy McFarland þegar það þarf að ná í ákveðnar stjörnur. Getty

Forsetaframboðsteymi Donalds Trump hefur undanfarið reynt að halda viðburði eða fundi með fyrrverandi Bandaríkjaforsetanum annars vegar og röppurum og hip-hop-tónlistarmönnum hins vegar. Talið er að það sé gert til að höfða til hörundsdökkra kjósenda.

Maður að nafni Billy McFarland er að sögn Rolling Stone-tímaritsins að vinna í því að tengja Trump við hina ýmsu rappara. McFarland þessi er hvað þekktastur fyrir að skipuleggja Fyre Fest-tónlistarhátíðina sem var í raun svikamylla. 

Árið 2018 hlaut hann sex ára fangelsisdóm fyrir að framvísa fölsuðum skjölum til að fá fjárfesta til að leggja 27 milljónir bandaríkjadali inn á fyrirtæki hans, Fyre Media.

Dómarinn sem dæmdi McFarland er sagður hafa kallað hann „rað-svikahrapp“ sem hefði verið óheiðarlegur allt sitt líf. McFarland losnaði úr steininum árið 2022 en er enn á skilorði.

Samkvæmt Rolling Stone kom McFarland rapparanum Icewear Vezzo í samband við Trump vegna fyrirhugaðrar heimsóknar frambjóðandans til Detroit-borgar. 

Þá hefur McFarland sjálfur sagst hafa tengt Trump við rapparana Sheff G og Sleepy Hallow sem varð til þess að þeir komu fram á viðburði hans í New York-borg.

Þess má geta að Sheff G og Sleepy Hallow eru grunaðir um aðild að tólf skotárásum í gengjastríði í New York.

Rolling Stone hefur eftir fólki innan úr kosningateymi hans að McFarland sé ekki í neinu formlegu hluverki í framboðinu. 

Hins vegar leiti teymið til hans þurfi að ná í ákveðna rappara, tónlistarmenn eða aðrar stjörnur.

Markmiðið er sagt vera að fá rappara til að styðja við framboð Trump, og jafnvel taka þátt í kosningabaráttunni. Framboðsteymið er sagt sérstaklega spennt fyrir þeim sem munu hvetja fylgjendur sína til að kjósa ekki Demókrata heldur flykkja sér að baki Trump.


Tengdar fréttir

Gestir Fyre-há­tíðarinnar fá um sjö þúsund dala bætur hver

Dómstóll í New York hefur dæmt að 277 einstaklingar sem ferðuðust til Bahamaeyja til að sækja Fyre-hátíðina árið 2017 skuli hver um sig fá greiddar sjö þúsund dala í sáttagreiðslu. Það samsvarar tæplega 900 þúsund krónum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×