Enski boltinn

Roon­ey tekur við B-deildar­liði Plymouth

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wayne Rooney er snúinn aftur í þjálfun.
Wayne Rooney er snúinn aftur í þjálfun. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Wayne Rooney er snúinn aftur í þjálfun. Hann var í gær ráðinn þjálfari B-deildarliðs Plymouth Argyle. Liðið rétt hélt sér í deildinni á nýafstaðinni leiktíð á kostnað Birmingham City, sem er síðasta liðið sem Rooney þjálfaði.

Hinn 38 ára gamli Wayne Rooney gerði garðinn frægan með Manchester United áður en skórnir fóru upp á hillu árið 2021. Hann er markahæsti leikmaður i sögu Man United og aðeins Harry Kane hefur skorað fleiri mörk fyrir England en Rooney.

Síðan Rooney lagði skóna á hilluna hefur hann starfað sem þjálfari. Fyrst hjá Derby County og svo hjá D.C. United í Bandaríkjunum. Hann var nokkuð óvænt ráðinn til Birmingham City á síðustu leiktíð en það gekk skelfilega og entist hann ekki lengi. Var hann látinn fara áður en liðið féll niður í ensku C-deildina.

Nú er Rooney tekinn við Plymouth Argyle, liðinu sem hélt sæti sínu á kostnað Birmingham. Á meðan Birmingham féll með 50 stig þá hélt Plymouth sæti sínu með 51 stig.

Félagið er með þeim minni í ensku B-deildinni og ljóst að Rooney þarf að vinna gott starfi ætli það að halda sæti sínu á næstu leiktíð. Þá hefur Rooney ekki gengið vel að undanförnu eftir að byrja þjálfaraferilinn vel með Derby. 

Rooney hefur gefið út að markmið hans sé að þjálfa Man United en til að það gangi eftir þarf hann að fara vinna leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×