Enski boltinn

Ten Hag: Ó­sann­gjörn gagn­rýni á bæði mig og liðið allt

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ten Hag fagnar með leikmönnum sínum.
Ten Hag fagnar með leikmönnum sínum. Matthew Peters/Getty Images

Erik Ten Hag stóð uppi sem FA bikarmeistari eftir erfitt tímabil við stjórnvöl Manchester United. 

„Þetta snerist um að sanna okkur eftir erfiðleika. Liðið sýndi þrautseigju og ég er svo stoltur af þeim,“ sagði Ten Hag í viðtali við Gary Lineker á BBC strax eftir leik. 

Ten Hag var þá spurður hvort honum fyndist sú gríðarlega gagnrýni sem hann og lið hans hafa fengið á tímabilinu ósanngjörn.

„Það finnst mér. Bæði á mig og liðið allt, þetta var ekki rétt. Ég hef sagt það margoft að þegar allir eru heilir spilum við frábæran fótbolta. Við vorum meiðslahrjáðir og spiluðum vissulega ekki alltaf vel, en það er vegna þess að við þurftum að færa fórnir. Það gerðist kannski 3-4 sinnum síðustu tvö árin að allir voru heilir.“

Þá var vöngum velt yfir framtíð Ten Hag, sem er enn óráðin. Margir hafa viljað bola honum burt en ákvörðunin fellur á hendur nýrra eigenda félagsins.

„Ég veit það ekki. Það eina sem ég vil gera er að halda áfram og þróa okkar lið og leikstíl. Fyrir mér er þetta langtímaverkefni. Þegar ég mætti var allt í rugli, við erum á betri stað núna en ekki enn þar sem við viljum vera.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×