Á vef Veðurstofunnar segir að það verði kaldi eða strekkingur vestantil en annars hægari vindur. Skúrir á Suðausturlandi og lítilsháttar rigning eða jafnvel slydda um landið norðanvert, en yfirleitt þurrt suðvestanlands.
Hiti á landinu verður á bilinu tvö til tólf stig þar sem verður mildast syðst.
„Á morgun, þriðjudag er svo útlit fyrir fremur hægan vind á landinu og víða þurrt og bjart veður, en stöku skúrir við suðurströndina. Hiti breytist lítið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Vestlæg eða breytileg átt, víða 3-10 m/s og bjartviðri, en stöku skúrir syðst. Hiti 6 til 12 stig að deginum.
Á miðvikudag: Austan og suðaustan 3-10 og dálitlar skúrir, en lengst af þurrt á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag og föstudag: Austlæg eða breytileg átt 5-13 og dálítil væta öðru hvoru, einkum vestantil. Heldur svalara.
Á laugardag og sunnudag (hvítasunnudagur): Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt. Skúrir á stöku stað og hiti 2 til 10 stig, mildast suðvestantil.