Skytturnar skutu sér á toppinn

Martin Ödegaard skoraði seinna mark Arsenal í uppbótartíma. 
Martin Ödegaard skoraði seinna mark Arsenal í uppbótartíma.  (Photo by Mike Hewitt/Getty Images)

Arsenal kom sér í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í dag með 0-2 sigri gegn Wolverhampton Wanderers. 

Wolves komust nálægt því að taka forystuna á 30. mínútu eftir góða sókn upp hægri kantinn en skot Joao Gomes var varið í þverslánna og út.

Leandro Trossard skoraði fyrra markið undir blálok fyrri hálfleiks eftir góðan undirbúning Gabriel Jesus. Trossard þurfti að teygja sig og skaut með tánni en þaðan sveif boltinn glæsilega í stöngina og inn.

Í seinni hálfleik féllu heimamenn aftar á völlinn og ógnuðu marki gestanna minna.

Það dró ekki aftur til tíðinda fyrr en Martin Ödegaard kom boltanum í netið á fimmtu mínútu uppbótartíma og tryggði tveggja marka sigur.

Úlfarnir voru þá farnir að þreytast og Arsenal komst auðveldlega upp völlinn. Varnarmaður renndi sér fyrir boltann fyrst en Ödegaard tók eigið frákast og kom boltanum í netið í annarri tilraun.

Arsenal er nú í efsta sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Manchester City sem á leik til góða. Skytturnar mæta Chelsea næst á þriðjudaginn kemur klukkan 19:00. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira