Erlent

Íranskir sér­sveitar­menn tóku stjórn á flutninga­skipi

Samúel Karl Ólason skrifar
Íranskir hermenn sigu um borð í flutningaskiptið í morgun og sigldu því inn í landhelgi Íran.
Íranskir hermenn sigu um borð í flutningaskiptið í morgun og sigldu því inn í landhelgi Íran. AP

Hermenn frá Byltingarvörðum Írans tóku í morgun stjórn á flutningaskipi nærri Hormuz-sundi. Skipinu var í kjölfarið siglt inn í landhelgi Írans en skipið er sagt tengjast Ísrael, þó því sé siglt undir fána Portúgal.

Skiptið heitir MSC Aries og er sagt í eigu Zodic Maritime, fyrirtæki sem er með höfuðstöðvar í Lundúnum. Það félag er í eigu Zodiac Group, sem ísraelski auðjöfurinn Eyal Ofer á. Tuttugu og fimm menn eru í áhöfn skipsins, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Ríkismiðlar Írans segja árásina hafa verið gerða af sérsveitarmönnum sjóhers Byltingarvarðanna. Myndband sem blaðamenn AP komu höndum yfir rennir stoðum undir það en á því má sjá hermenn síga um borð í skipið úr þyrlu.

Byltingarverðir Íran, sem er stærsta og valdamesta deild hers landsins, heyra eingöngu undir Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Íran, sem stjórnar landinu. Hersveitir þessar flytja þar að auki vopn til vígahópa sem yfirvöld í Íran styðja víðsvegar um Mið-Austurlönd, eins og Hesbollah í Líbanon og Sýrlandi, Húta í Jemen og aðra hópa í Írak.

Ísraelar og Íranar hafa eldað grátt silfur saman um árabil. Nokkuð hefur þó hitnað í kolunum á undanförnum mánuðum, samhliða stríðinu á Gasaströndinni.

Þáttaskil urðu svo í byrjun mánaðarins þegar Ísraelar gerðu loftárásir á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi. Tólf féllu í árásinni og þar á meðal tveir herforingjar Byltingarvarða Íran.

Ráðamenn í Íran hafa hótað hefndum. Talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins sagði í gær að von væri á meiriháttar árás Írana á Ísrael.

Frá 2019 hafa Íranar tekið nokkur skip með þessum hætti við Hormuz-sund. Hútar, sem studdir eru af Íran, hafa einnig gert árásir á flutningaskip á Aden-flóa og Rauðahafi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×