Erlent

Sam­komu­lag að nást um að nýta vexti af Rússa­eignum í þágu Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið að því að styrkja varnir Úkraínumanna í Kharkív.
Unnið að því að styrkja varnir Úkraínumanna í Kharkív. AP/Efrem Lukatsky

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandins hafa komist að samkomulagi um að veita vöxtum af þeim eignum Rússa sem hafa verið frystar í refsiaðgerðum sambandsins til að fjármagna varnir Úkraínumanna.

Leiðtogarnir funda nú í Brussel en samkvæmt tillögunni sem liggur fyrir mun upphæðin nema um þremur milljörðum evra á þessu ári og standa vonir til að Úkraínumenn gætu fengið milljarð strax í sumar.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði eftir fundarhöld í gær að það væri sterkur vilji til að nýta fjármunina til að efla hernaðarlega stöðu Úkraínumanna. Leiðtogarnir yrðu hins vegar að vinna hratt.

Von der Leyen sagði einnig að Evrópusambandið væri að skoða leiðir til að auka skatta á kornvöru frá Rússlandi, þar á meðal kornvöru sem hefði verið stolið frá Úkraínu.

Samkvæmt umfjöllun Guardian settu Ungverjar sig upp á móti tillögunum um nýtingu vaxtartekna hinna frystu eigna en þeir eru sagðir hafa látið af mótmælum sínum gegn því að tillagan yrði orðuð þannig að það væri ekki tekið fram að til stæði að verja fjármununum til að vopna Úkraínumenn.

Enn á eftir að ákveða hvernig heildarupphæðin verður hlutuð í sundur en gert er ráð fyrir að um 90 prósentum verði varið til hernaðarmála og um það bil tíu prósentum til uppbyggingar. Þá hefur verið rætt að verja mögulega einhverjum fjármunum til friðargæslu annars staðar í heiminum, til að koma til móts við andstöðu Ungverja.

Stjórnvöld í Moskvu hafa fordæmt fyrirætlanirnar og segja þær brot á alþjóðalögum. Sérfræðingar viðurkenna að ákveðin áhætta felist í fjárnáminu og að Evrópa verði mögulega skikkuð til þess af alþjóðlegum dómstólum að skila peningunum að stríði loknu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×