Íslenski boltinn

Gylfi spilar á Ís­landi daginn fyrir EM-umspilið

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað á Íslandi á miðvikudaginn.
Gylfi Þór Sigurðsson gæti spilað á Íslandi á miðvikudaginn. Valur/STYRMIR ÞÓR BRAGASON

Gylfi Þór Sigurðsson, markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins, er sagður spila sinn fyrsta leik í búningi Vals á Hlíðarenda á miðvikudaginn.

Þetta er fullyrt í frétt Fótbolta.net en Valsmenn eiga fyrir höndum leik við ÍA á miðvikudagskvöld, í undanúrslitum Lengjubikarsins. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Gylfi var kynntur sem nýr leikmaður Vals síðastliðinn fimmtudag og félagaskipti hans voru staðfest á vef KSÍ á laugardag. Hann er því orðinn gjaldgengur með liðinu.

Arnar vill fara varlega í sakirnar

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, sagði við Vísi fyrir helgi að staðan á Gylfa væri allt önnur og betri en þegar hann æfði með liðinu um skamma hríð síðasta sumar. Það voru fyrstu liðsæfingar Gylfa eftir tveggja ára hlé frá fótbolta.

Gylfi meiddist hins vegar í vetur, eftir að hafa spilað leiki með Lyngby og íslenska landsliðinu í haust, en hefur sinnt endurhæfingu á Spáni á þessu ári og gat svo tekið fullan þátt í nokkrum æfingum Vals þar.

„Mér finnst hann líta vel út. Hann er með fínar hlaupatölur og maður sér gæðin í því sem hann er að gera. Hann var að klára eina langa æfingu hjá okkur, er með flottar tölur. Auðvitað vitum við þó að við þurfum að fara varlega í sakirnar með hann. En það er ekki langt í land þar til að hann geti haldið inn á fótboltavöllinn og hjálpað til. Það er mjög stutt í að hann sé kominn á þann stað,“ sagði Arnar á föstudaginn.

Arnar sagði hins vegar að Gylfi væri ekki kominn á sama stað og aðrir leikmenn Vals, og að „nokkrar vikur“ færu í að byggja hann upp.

„Hann er búinn að taka þrjár fullar æfingar með okkur og sýnir ekki merki um einhver eftirköst. Við stýrum álaginu á honum mjög mikið. Hann er á flottum stað. En ekki alveg á sama stað og restin af liðinu. En er samt á góðum stað.“

Ekki kominn nógu langt að mati Hareide

Gylfi er þó ekki á nægilega góðum stað að mati Åge Hareide landsliðsþjálfara sem ekki valdi Gylfa í landsliðshóp sinn fyrir EM-umspilið.

Hópurinn var tilkynntur á föstudag og kemur saman í Búdapest í dag, fyrir leikinn við Ísrael á fimmtudaginn. Gylfi hefur sagst afar vonsvikinn yfir því að hafa ekki komist í hópinn og Hareide svaraði því á blaðamannafundi á föstudaginn.

„Ég er ánægður með að hann sé óánægður því það hefur þá þýðingu fyrir hann að spila fyrir Ísland,“ sagði Hareide en bætti við:

„Hann hefur verið lengi frá keppni vegna meiðsla og engan leik spilað 2024. Hann er nýkominn aftur úr meiðslum til æfinga. Við vitum ekki fitnessið hjá honum. Það er ósanngjarnt fyrir hina leikmennina að taka hann inn.

En Gylfi er mjög góður fótboltamaður og ég óskaði þess að hann hefði haldið áfram eftir leikinn gegn Liechtenstein [í október, áður en Gylfi meiddist]. Þá væri hann mjög mikilvægur fyrir okkur. Við vitum hvað hann getur og vonandi kemur hann aftur af krafti, svo við getum valið hann fyrr eða síðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×