Erlent

Fimm dóu þegar hjálpar­gögn lentu á þeim

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjálpargögnum var varpað á Gasaströndina í fallhlífum.
Hjálpargögnum var varpað á Gasaströndina í fallhlífum. AP/Leo Correa

Að minnsta kosti fimm manns eru sagðir hafa látið lífið þegar hjálpargögn sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Gasaströndina úr lofti í gær lentu á þeim. Fallhlíf allavega eins vörubrettis opnaðist ekki og það féll til jarðar á miklum hraða.

Á jörðu niðri hafði fjöldi fólks komið saman til að taka á móti hjálpargögnunum, samkvæmt fregnum sem sagt er frá á vef Times of Israel og annarra miðla.

Fréttamaður Al Jazeera á Gaza segist einnig hafa heyrt fregnir af andlátunum. Þær herma að tveir hafi dáið samstundis þegar birgðirnar féllu á þá og þrír til viðbótar hafi dáið á sjúkrahúsi.

Myndband sem á að sýna eitt vörubrettanna falla til jarðar hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í morgun. Óljóst er hvort fólkið dó eftir að þetta bretti lenti á þeim eða önnur.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í stefnuræðu sinni í gærkvöldi að Bandaríkjamenn ætluðu sér að setja upp bráðabirgðahöfn við Gasaströndina og flytja þannig hjálpargögn á svæðið. Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa opinberað sambærilegar ætlanir og stendur til að senda skip með hjálpargögn á næstunni.

Sjá einnig: Banda­ríkja­menn hyggjast reisa bráða­birgða­höfn á Gasa

Gasaströndin er í rúst eftir rúmlega fimm mánaða hernað og hefur alþjóðlegur þrýstingur á yfirvöld í Ísrael aukist verulega. Íbúar á svæðinu standa frammi fyrir hungursneyð en AP fréttaveitan segir börn byrjuð að deyja úr hungri.

Uppfært: Fólkið lét lífið í gær, ekki í dag eins og stóð fyrst í fréttinni. Þá segja embættismenn í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna að umrætt vörubretti hafi ekki verið frá þeim. Fjölmiðlar ytra segja Sameinuðu arabísku furstadæmin einnig hafa varpað hjálpargögnum á Gasaströndina úr lofti í gær.


Tengdar fréttir

Stefnuræða Bidens: Fór hörðum orðum um Trump en nefndi hann aldrei á nafn

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, flutti í gær sína árlega stefnuræðu á bandaríska þinginu þar sem hann fór hörðum orðum um Donald Trump, fyrrverandi forseta og væntanlegan mótframbjóðanda hans, án þess þó að nefna hann á nafn. Þar að auki færði hann rök fyrir öðru kjörtímabili sínu og gagnrýndi Repúblikana harðlega.

Skip sökk eftir loftárás Húta

Flutningaskipið Rubymar sökk í Rauðahafinu í gærkvöldi eftir loftárás Húta í Jemen. Skipið er það fyrsta til þess að sökkva vegna aðgerða Húta í tengslum við stríðið á Gasa. 

Bandaríkin henda hjálpargögnum úr lofti yfir Gasa

Bandaríkin hyggjast henda hjálpargögnum úr lofti yfir Gasa svæðið á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Joe Biden Bandaríkjaforseta. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til Gasa undanfarna daga, vikur og mánuði en gagnrýnendur segja aðferðina lélega og ónákvæma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×