Erlent

Stríðið í Úkraínu háð í Súdan

Samúel Karl Ólason skrifar
Abdel Fattah al-Burhan með hermönnum sínum í maí í fyrra. Herinn átti undir högg að sækja á þessum tima og leitaði al-Burhan til Úkraínu eftir aðstoð.
Abdel Fattah al-Burhan með hermönnum sínum í maí í fyrra. Herinn átti undir högg að sækja á þessum tima og leitaði al-Burhan til Úkraínu eftir aðstoð. Getty/Súdanski herinn

Þegar herforinginn Abdel Fattah al-Burhan, leiðtogi hers Súdan, átti í miklu basli síðasta sumar vegna uppreisnar fyrrverandi samstarfsmanns hans, Mohamed Hamdan Daglo, leiðtogi öflugra sveita sem kallast RSF, hringdi hann til Úkraínu eftir aðstoð. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, svaraði kallinu.

Nokkrum vikum síðar lentu um hundrað úkraínskir sérsveitarmenn, flestir frá leyniþjónustu úkraínska hersins (GUR), í Súdan og tóku þátt í að berjast gegn RSF. Þessir sérsveitarmenn hafa meðal aðstoðað hermenn gegn RSF og rússneskum bakhjörlum uppreisnarmannanna í Wagner Group málaliðahópnum.

Meðal annars tóku þeir þátt í að reka RSF-liða frá flestum hverfum Khartoum, höfuðborgar Súdan, og gáfu þeir hermönnum nýja riffla og hljóðdeyfa, auk þess sem þeir hafa þjálfað hermenn. Þetta hafa þeir gert í tveimur hópum.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal hafði Selenskí góðar og gildar ástæður til að koma Burhan til aðstoðar. Eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022 hafði Burahn sent Úkraínumönnum vopn og þar að auki hafa Rússar notað Súdan til að fjármagna stríðsrekstur sinn í Úkraínu með gullgreftri og vopnasölu til RSF.

Wagner í Afríku

Wagner Group var áður stýrt af auðjöfrinum Jevgení Prígósjín en eftir að hann dó þegar sprenging varð í flugvél hans yfir Rússlandi í fyrra, tók varnarmálaráðuneyti Rússlands yfir stjórn málaliðahópsins. Í gegnum hópinn grafa Rússar eftir gulli í nokkrum löndum í Afríku og nýta sér aðrar auðlindir sem þeir hafa aðgang að þar.

Sjá einnig: Kreml tekur yfir stjórn Wagner í Mið-Afríkulýðveldinu

Málaliðar Wagner hafa starfað víða um Afríku á undanförnum árum og má þar nefna lönd eins og Líbíu, Malí, Búrkína Fasó og Mið-Afríkulýðveldið.

Sjá einnig: Síðustu dagar Prígósjíns - Kepptist við að halda veldi sínu saman

Embættismenn sögðu blaðamönnum WSJ að fyrir stríðið sem hófst síðasta haust væri áætlað að einungis þriðjungur alls gulls sem grafið væri upp í Súdan væri skráð opinberlega. Um fjórum milljörðum dala í gulli væri stolið á ári hverju og mikill hluti þess er talinn enda í höndum Rússa.

Fregnir hafa áður borist af úkraínskum sérsveitarmönnum í Súdan en frétt WSJ varpar mun meira ljósi á aðgerðir þeirra þar.

Einn viðmælandi WSJ, hermaður sem leiddi eitt teymi Úkraínumanna í Súdan, sagði ekki eingöngu hægt að berjast við Rússa í Úkraínu.

„Ef þeir eru með gullnámur í Súdan, þurfum við að gera þær óarðbærar,“ sagði hermaðurinn sem gengur undir nafninu Prada.

Nutu forskot í myrkrinu

Úkraínsku hermennirnir komust fljótt að því að hernaðurinn í Súdan var annars eðlis en þeir voru vanir. Hermenn voru illa þjálfaðir og agi lítill innan hersins, þar sem hermenn höfðu ekki fengið greitt um langt skeið. Þá voru hermenn og uppreisnarmenn lítið sem ekkert merktir og voru voðaskot tíð.

Sérsveitarmennirnir nutu sérstakra yfirburða að nóttu til, þar sem þeir voru þjálfaðir í næturárásum og búnir nætursjónaukum. Hvorki herinn né uppreisnarmenn gerðu árásir á næturnar.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, fundaði síðasta september með Fattah al-Burhan, á flugvelli í Írlandi. Þá sagði Selenskí að þeir hefðu meðal annars tala um sameiginlega erfiðleika þeirra og þá sérstaklega um ólöglega vígahópa sem fjármagnaðir eru af yfirvöldum í Rússlandi.

Leyniþjónusta úkraínska hersins (GUR) er leidd af Kyríló Búdanóv. Hann er 38 ára gamall fyrrverandi sérsveitarmaður og hefur heitið því að herja á Rússa, hvar sem þá má finna í heiminum.

GUR hefur notið mikils stuðnings frá Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) í formi þjálfunar og búnaðar. Þennan stuðning eru njósnarar og sérsveitarmenn GUR sagðir hafa notað til árása í Rússlandi og víðar.

Þá tóku hermennirnir úkraínsku upp á því að yfirgefa herstöð sína á kvöldin í smáum hópum, finna skotmörk og ráðast á þau. Í einu tilfelli skutu þeir eldflaug inn um glugga íbúðar sem málaliðar Wagner notuðu og notuðu svo dróna til að varpa sprengjum á málaliða sem voru sendir á vettvang í kjölfarið.

Árásir þessar komu RSF-liðum líka verulega á óvart en áður en Úkraínumennirnir mættu á sviðið voru þeir vanir að sofa undir berum himni, nærri víglínunni í borginni. Þeir hættu því fljótt.

Annar hermaður, sem kallast King og leiddi fyrsta hóp úkraínskra hermanna í Súdan, sagði að með því að gera árásir á næturnar ættu þeir auðveldar með að fara huldu höfði.

Báðir hópar úkraínskra hermanna sem fóru til Súdan eru komnir aftur til Úkraínu en seinni hópurinn sneri aftur fyrr á þessu ári. Leiðtogar beggja hópa segjast ekki hafa misst einn hermann.

Ódæði og stríðsglæpir

Úkraínsku hermennirnir notuðu reglulega dróna og þar á meðal sjálfsprengidróna sem hermenn Súdan lærðu einnig að nota og eru sagðir hafa gert það með góðum árangri. Úkraínumenn hafa einnig útvegað hernum tyrkneska Bayraktar TB2 dróna sem hægt er að nota til nákvæmra loftárása.

Al-Burhan og Daglo tóku höndum saman árið 2021 og frömdu valdarán í Súdan. Í fyrra stóð svo til að innleiða RSF í herinn en Dagalo óttaðist að missa öll sín völd með því að flytja sveitir sínar undir stjórn al-Burhan og hófust átökin þess vegna.

Allra fyrst vegnaði hernum vel gegn RSF en taflið snerist þegar Daglo fékk umfangsmikla aðstoð frá Wagner í formi vopna og manna. RSF sótti að Khartoum og sat um borgina um nokkuð skeið.

Hernum hefur nú vaxið ásmegin gegn RSF og segja sérfræðingar að það megi að hluta til rekja til notkunar þeirra á drónum og sérsveita súdanska hersins.

RSF stjórnar enn hverfum í vesturhluta Khartoum og umfangsmiklum svæðum í vesturhluta og suðurhluta Súdan.

Átökin í Súdan hafa á köflum verið mjög grimmileg og hafa báðar fylkingar verið sakaðar um stríðsglæpi. Tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa fallið í átökunum og milljónir hafa þurft að flýja heimili sín. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst ástandinu í Súdan sem martraðakenndu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×