Enski boltinn

Coventry fyrst liða í átta liða úr­slit þeirrar elstu og virtustu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ellis Simms (t.v.) fagnar einu af þremur mörkum sínum.
Ellis Simms (t.v.) fagnar einu af þremur mörkum sínum. Catherine Ivill/Getty Images

Í kvöld fór fyrsti leikur 16-liða úrslita ensku bikarkeppninnar fram. Þar vann Coventry City spútniklið Maidenhead United örugglega 5-0. Enska bikarkeppnin í knattspyrnu, FA Cup, er elsta bikarkeppni í heimi.

Maidenhead United sem situr í 15. sæti E-deildar Englands er þjálfað af George Elokobi, fyrrverandi leikmanni Úlfanna og fleiri liða. Liðið sló Ipswich Town út í síðustu umferð en Ipswich er í harðri baráttu um að komast upp úr ensku B-deildinni.

Coventry er í 9. sæti ensku B-deildarinnar en eftir sigur gestanna á Ipswich var ljóst að það var ekkert vanmat í gangi. Ellis Simms, framherjinn stæðilegi í liði Coventry, gerði út um leikinn í fyrri hálfleik en hann skoraði þrennu á rúmum 25 mínútum.

Fyrsta markið skoraði hann á 9. mínútu þegar hann kláraði færi sitt einkar vel eftir frábæra sendingu Kasey Palmer.

Fimm mínútum síðar renndi Palmer boltanum aftur í gegnum vörn gestanna og aftur skoraði Ellis með fínu skoti. Að þessu sinni má setja spurningamerki við Lucas Covolan, markvörð gestanna.

Simms fullkomnaði svo þrennu sína þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Hann fylgdi þá eftir skoti sem Covolan gat ekki haldið. Var þetta fyrsta þrenna Simms á ferlinum.

Í síðari hálfleik bætti Fabio Tavares við tveimur mörkum og leiknum lauk eins og áður sagði með 5-0 sigri Coventry sem er komið alla leið í 8-liða úrslit.

Aðrir leikir 16-liða úrslitanna fara fram á morgun, þriðjudag, og á miðvikudag. Verða sex af sjö leikjum sýndir í beinni útsendingu á rásum Stöðvar 2 Sport.

Þriðjudagur

  • 19.20: Bournemouth - Leicester City (Stöð 2 Sport 4)
  • 19.35: Blackburn Rovers - Newcastle United (Stöð 2 Sport 3)
  • 19.50: Luton Town - Manchester City (Stöð 2 Sport 2)

Miðvikudagur

  • 19.00: Dregið í 8-liða og undanúrslit (Stöð 2 Sport 2)
  • 19.20: Chelsea - Leeds United (Stöð 2 Sport 4)
  • 19.35: Nottingham Forest - Manchester United (Stöð 2 Sport 3)
  • 19.50: Liverpool - Southampton (Stöð 2 Sport 2)

Leikur Úlfanna og Brighton & Hove Albion verður ekki sýndur í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×