Íslenski boltinn

Telur sig eiga inni pening hjá KA og stefnir fé­laginu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Grétarsson er þjálfari Vals í dag.
Arnar Grétarsson er þjálfari Vals í dag. Vísir/Anton Brink

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals í Bestu deild karla, hefur stefnt fyrrverandi vinnuveitanda sínum KA vegna vangoldinna bónusgreiðslna. Málið verður tekið fyrir 1. mars næstkomandi í Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Kristján Óli Sigurðsson, einn af þáttastjórnendum hlaðvarpsþáttarins Þungavigtarinnar, benti á þetta á X-síðu, áður Twitter, sinni. Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Arnars, staðfesti í viðtali við Fótbolti.net að Arnar telji sig eiga inni bónusgreiðslu þar sem hann stýrði liðinu nær allt tímabilið þegar það endaði í 3. sæti og tryggði sér þar með þátttöku í Evrópukeppni.

Arnar þjálfaði KA frá 2020 til 2022. Haustið 2022 endaði KA í 3. sæti en Arnar kláraði ekki tímabilið með liðið þar sem hann hafði þegar samið við Val um að taka við félaginu að tímabilinu loknu.

Í samningi Arnars var ákvæði um bónusgreiðslu ef KA kæmist í Evrópukeppni og telur Arnar sig eiga inni hluta af greiðslunni þar sem hann skildi við félagið í 2. sæti. Hallgrímur Jónasson tók við af Arnari og kláraði tímabilið áður en hann gerðist aðalþjálfari þess á síðustu leiktíð.

Lærisveinar Arnars í Val taka á móti ÍA í 1. umferð Bestu deildarinnar þann 7. apríl næstkomandi. Fyrr þann sama dag mætast KA og HK á Akureyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×