Enski boltinn

„Leik­menn mínir eru ofur­menni“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pep á hliðarlínunni.
Pep á hliðarlínunni. EPA-EFE/PETER POWELL

Pep Guardiola gat ekki annað en hrósað leikmönnum sínum eftir nauman 1-0 útisigur á Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

„Leikmenn mínir eru ofurmenni, ég dáist að þeim. Þeir eru svo góðir, Í mörg ár höfum við spilað á þriggja daga fresti. Bournemouth hafði viku til að undirbúa sig, við höfum alltaf minni tíma. Þegar fólk segir að það spili allir við sömu aðstæður í ensku úrvalsdeildinni, það er ekki rétt. Við fáum ekki sama tíma, við spilum miklu fleiri leiki en hin liðin.“

„Þetta er erfiður staður heim að sækja, þeir eru með frábært lið. Þeir unnu 3-0 á Old Trafford,“ sagði Pep um Bournemouth og stráði þar með salti í sár Manchester United.

„Við krefjumst mikils af leikmönnum okkar og þeir brugðust við því. Ég veit að fólk segir að þeir þéni mikinn pening en dagskráin er of þétt, og það er sannleikurinn. En sýningin verður að halda áfram og það kemur mér sífellt á óvart hvað við erum vel stemmdir.“

„Leikmennirnir búa yfir gríðarlegum karakter og eru svo miklir keppnismenn. Meira að segja þegar þeir eru þreyttir þá gefa þeir allt sem þeir eiga. Stuðningsfólk okkar hlýtur að vera svo stolt af þessum gæjum.“

„Síðustu tíu til fimmtán mínúturnar voru erfiðar. Við unnum þrennuna og fólk heldur að við eigum að vinna alla leiki 4- eða 5-0. Það er ekki raunveruleikinn og vonandi fáum við bráðum vikufrí þar sem við getum hvílt bæði líkama og sál.“

Eftir sigur dagsins er Manchester City stigi á eftir Liverpool þegar bæði lið eiga 12 leiki eftir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×