Enski boltinn

Hinn ní­tján ára For­son gæti byrjað í fjar­veru Højlund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Omari Forson hendir sér í tæklingu í leik gegn Arsenal á undirbúningstímabilinu.
Omari Forson hendir sér í tæklingu í leik gegn Arsenal á undirbúningstímabilinu. EPA-EFE/JUSTIN LANE

Meiðslavandræði Manchester United ætla engan endi að taka en í gær, föstudag, var staðfest að danski framherjinn Rasmus Højlund verði frá næstu tvær til þrjár vikurnar. Í fjarveru Danans gæti hinn 19 ára gamli Omari Forson byrjað sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.

Højlund hefur verið ein helsta ástæða fyrir góðu gengi Man United undanfarnar vikur en Daninn hefur verið iðinn kolann fyrir framan mark andstæðinganna. Hann hafði skorað í sex deildarleikjum í röð, þar á meðal bæði mörkin í 2-1 sigrinum á Luton Town.

Danski framherjinn var hins vegar að glíma við meiðsli þegar hann gekk í raðir Man United síðasta sumar sem og hann missti af undirbúningstímabilinu. Mikið álag undanfarið virðist hafa bitið hann í rassinn þar sem hann er að glíma við vöðvameiðsli og verður frá næstu vikurnar.

Koma fréttirnar í kjölfar þess að tilkynnt var að Luke Shaw verði frá næstu 12 vikurnar og þá er ekki vitað hvenæar Lisandro Martínez snýr aftur eftir að hafa meiðst á hné.

Rasmus hefur þurft að spila hverja einustu mínútu sem fremsti maður þar sem meiðslapésinn Anthony Martial er líkt og vanalega ekki leikfær. Það er því talið líklegt að Erik Ten Hag, þjálfari Man Utd, muni stilla hinum 19 ára gamla Forson upp í byrjunarliðinu þegar Man Utd fær Fulham í heimsókn í dag, laugardag.

Forson hefur þegar komið við sögu í þremur leikjum. Hann kom inn af bekknum þegar Man Utd lagði Wigan Athletic og Newport County í enska bikarnum. Þá nýtti hann mínútur sínar í ótrúlegum 4-3 sigri á Úlfunum vel en hann lagði upp glæsilegt sigurmark Kobbie Mainoo í uppbótartíma.

Forson verður samningslaus í sumar og talið er að Ten Hag sé að spila honum frekar en til að mynda Amad og Antony í von m að Forson framlengi samning sinn á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×