Enski boltinn

Man Utd búið að hafa form­lega sam­band við Ashworth

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dan Ashworth er kominn í leyfi.
Dan Ashworth er kominn í leyfi. Dan Mullan/Getty Images

Dan Ashworth er kominn í leyfi frá starfi sínu sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Newcastle United en allt bendir til þess að hann taki við sama starfi hjá Manchester United.

Auðjöfurinn Jim Ratcliffe hefur svo sannarlega tekið til hendinni á Old Trafford síðan það var staðfest að hann væri að kaupa 25 prósent hlut í Man United. Fyrsta verk hans er að taka til á skrifstofunni og er markmiðið að byggja teymi sem getur komið Man Utd aftur í hæstu hæðir.

Þar á meðal er Ashworth en sá er gríðarlega mikils metinn innan ensku knattspyrnunnar. Man United hefur formlega sóst eftir kröftum hans og þá hefur verið tilkynnt að Ashworth sé gríðarlega spenntur fyrir mögulegum vistaskiptum.

Hinn 52 ára gamli Ashworth, sem er samningsbundinn Newcastle næstu tvö árin, var formlega sendur í leyfi í dag. Hann hefur aðeins verið í starfi í Norður-Englandi í 20 mánuði en áður starfaði hann fyrir Brightin & Hove Albion og enska knattspyrnusambandið.

Í yfirlýsingu Newcastle þakkaði Darren Eales, framkvæmdastjóri félagsins, Ashworth fyrir og óskaði honum góðs gengis í framtíðinni.

The Guardian heldur því fram að Newcastle vilji fá 20 milljónir punda fyrir Ashworth en það gerir rúmlega 3,4 milljarða íslenskra króna. 

Í frétt BBC um málið kemur hins vegar fram að Man Utd telji sig í góðri stöðu til að fá Ashworth þar sem Newcastle þarf að borga honum full laun á meðan hann er í leyfi. Að sama skapi þá kemur fram að eigendur Newcastle ætli sér ekki að aðstoða Man United í uppgangi sínum nema borgað sé uppsett verð.

Ljóst er að annað liðið mun gefa eftir, stóra spurningin er bara hvort það verður United frá Manchester eða Newcastle.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×