Enski boltinn

Taplaus í heilt ár og raðar inn titlum

Sindri Sverrisson skrifar
Ber er hver að baki nema sér Rodri eigi, gæti Phil Foden verið að hugsa.
Ber er hver að baki nema sér Rodri eigi, gæti Phil Foden verið að hugsa. Getty/Chris Brunskill

Spænski miðjumaðurinn Rodri gat fagnað merkum áfanga um leið og hann fagnaði 3-1 sigri Manchester City gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöld.

Eins og stundum áður var það einhver af liðsfélögum Rodri sem stal senunni í leiknum og í þetta sinn var það Phil Foden sem skoraði þrennu.

Rodri, sem margir telja besta varnarsinnaða miðjumann heims í dag, stóð hins vegar einnig vel fyrir sínu eins og nánast alltaf.

Núna hefur Rodri spilað fóbolta með City í heilt ár án þess að tapa einum einasta leik. Hann kom sem sagt ekkert við sögu í þeim fimm leikjum sem City hefur tapað á þessum tíma. Þess ber þó að geta að til að þessi tapleysisstaðreynd gangi upp þá er leikurinn við Arsenal um Samfélagsskjöldinn flokkaður sem jafntefli, en Arsenal vann svo í vítaspyrnukeppni.

Á þessum tíma hefur Rodri þó fagnað hverjum titlinum á fætur öðrum. Hann vann Meistaradeild Evrópu, ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn, ofurbikar UEFA og HM félagsliða með City-liðinu. Mark frá Rodri tryggði City Evrópumeistaratitilinn sem félagið hafði þráð svo lengi.

Síðasta sumar vann hann sömuleiðis Þjóðadeild UEFA með spænska landsliðinu. Eina tap Rodri með spænska landsliðinu síðastliðna tólf mánuði var 2-0 tap gegn Skotum í undankeppni EM, þar sem Scott McTominay skoraði bæði mörkin.

Rodri, sem er 27 ára gamall, kom til City frá Atlético Madrid sumarið 2019 en City nýtti þá klásúlu í samningi hans við Atlético sem gerði hann falan fyrir 62,8 milljónir punda, sem þá var metfé í sögu City. Hann skrifaði þá undir samning til fimm ára við félagið en núgildandi samningur hans er til sumarsins 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×