Erlent

Viktor Orban gaf eftir: Ná saman um stuðning til Úkraínu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands og Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands og Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu. EPA-EFE/OLIVIER HOSLET

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa náð saman um stuðning til handa Úkraínu. Áður hafði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sett sig upp á móti stuðningnum.

Fram kemur í umfjöllun BBC að um sé að ræða stuðning sem nemi fimmtíu milljörðum evra. Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambands, segir að samþykktin marki tímamót. Leiðtogar Evrópusambandsins funduðu í Brussel í dag en síðasti fundur þeirra fór fram í desember.

Við það tilefni beitti Viktor Orban neitunarvaldi sínu gegn stuðningi við Úkraínu. 27 leiðtogar Evrópusambandsins þurfa allir að samþykkja aðgerðirnar. Síðan þá hefur hann sætt miklum þrýstingi af hálfu Evrópusambandsins.

Ungverski forsætisráðherrann hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji að stefna sambandsins gagnvart Úkraínu verði endurskoðuð. Hann hefur auk þess lýst því yfir að hann telji að Evrópusambandslönd ættu að styðja Úkraínu með öðrum hætti en með beinum fjármunum sambandsins.

Orban hefur meðal annars borið fyrir sig að hafa áhyggjur af innflutningi landbúnaðarvara frá Úkraínu til Evrópusambandsins, í afstöðu sinni til stuðnings til landsins. Hann hefur raunar lagt til að sá innflutningur verði stöðvaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×