Enski boltinn

Ráð­herra segir um­mæli Bartons um konur hættu­leg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joey Barton virðist vera í einhvers konar tilvistarkreppu þessa dagana.
Joey Barton virðist vera í einhvers konar tilvistarkreppu þessa dagana. getty/Matthew Ashton

Íþróttamálaráðherra Bretlands, Stuart Andrew, hefur fordæmt ummæli Joeys Barton um konur sem fjalla um fótbolta.

Barton hefur farið mikinn á Twitter undanfarna daga og gagnrýnt konur sem fjalla um karlabolta harðlega. Hann gekk meira að segja svo langt að líkja tveimur þeirra við fjöldamorðingjana Fred og Rose West.

Ummælin vöktu hörð viðbrögð og ITV sá ástæðu til að gefa út formlega yfirlýsingu vegna málsins.

Andrew hefur nú stigið fram og fordæmt ummæli Bartons og sagt þau hættuleg.

„Ummæli sem þessi opna flóðgáttir fyrir svívirðingar og það er óásættanlegt,“ sagði Andrew.

„Maður er alltaf hikandi í svona aðstæðum því svona fólk vill athygli og ég vil ekki veita því hana.“

Andrew sagðist jafnframt ætla að ræða við forráðamenn samfélagsmiðla um hvernig er hægt að taka á ummælum og athugasemdum eins og þeim sem Barton hefur látið frá sér.

Barton tísti eftir að Andrew hafði tjáð sig um ummæli hans og bauð honum í hlaðvarpið sitt.

Barton hefur verið atvinnulaus síðan honum var sagt upp sem knattspyrnustjóra Bristol Rovers síðasta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×