Fótbolti

Ó­smekk­leg um­mæli Joey Barton vekja hörð við­brögð

Siggeir Ævarsson skrifar
Barton meðan allt lék í lyndi hjá Bristol Rovers
Barton meðan allt lék í lyndi hjá Bristol Rovers Vísir/Getty

Joey Barton hefur ekki setið auðum höndum síðan honum var sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri hjá Bristol Rovers í haust en eins og margir auðnuleysingjar virðist hann helst verja tíma sínum á samfélagsmiðlum í misgáfulegum tilgangi.

Barton virðist hafa allt á hornum sér þegar kemur að störfum kvenna í kringum knattspyrnulýsingar og útsendingar þegar leikið er í karladeildum. Í desember lét hann dæluna ganga á Twitter þar sem hver kvenfjandsamlegu ummælin ráku önnur en það virðist fara mjög í taugarnar á Barton að konur séu að hasla sér völl á starfsvettvangi þar sem karlar hafa ráðið ríkjum áratugum saman.

Barton náði svo að toppa sjálfan sig í ósmekklegheitum í gær þegar hann sagði þær Eni Aluko og Lucy Ward vera „Fred og Rose West fótboltalýsinga“ en hjónin Fred og Rose West voru breskir raðmorðingjar sem frömdu í það minnsta tólf morð á 20 ára tímabili.

Þessi ummæli vöktu eðli málsins samkvæmt hörð viðbrögð marga og sá ITV ástæðu til að gefa út formlega yfirlýsingu vegna málsins, sem Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og lýsandi hjá Sky Sports, tók hressilega undir.

Svo virðist sem þessi viðbrögð fólks við ummælum Barton hafi ekki fært honum neina auðmýkt og raunar fremur forhert hann í sinni afstöðu frekar en hitt. Fólk skilji einfaldlega ekki brandara og myndlíkingar.

Í þessu samhengi er viðeigandi að rifja upp þann dóm sem Gummi Ben kvað upp hér um árið um þann mann sem Joey Barton hefur að geyma: „Hann er vitleysingur, fæddur þannig. Ég verð bara að fullyrða það. [...] Það á að henda þessum manni í fangelsi og ekkert annað. Algjör aumingi sem á ekki heima í íþróttum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×