Erlent

Snjóstormur gerir Skandinövum lífið leitt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vörubílar hafa helst flækst fyrir viðbragðsaðilum en erfiðara hefur reynst að losa þá af veginum eins og sjá má á þessari mynd frá Svíþjóð.
Vörubílar hafa helst flækst fyrir viðbragðsaðilum en erfiðara hefur reynst að losa þá af veginum eins og sjá má á þessari mynd frá Svíþjóð. EPA-EFE/JOHAN NILSSON SWEDEN OUT

Snjó hefur kyngt niður í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi og stormur fylgt snjónum með tilheyrandi samgöngutruflunum. Talað er um metmagn af snjó í Noregi og þá hafa þúsundir bíla setið fastir í Svíþjóð og í Danmörku. Tveir létust í snjóflóði í Finnlandi.

Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins kemur fram að sænski herinn hafi verið kallaður út til þess að aðstoða farþega bíla á E22 þjóðveginum í suðurhluta Svíþjóðar og færa þeim vatn og matarbirgðir. Farþegar höfðu sumir hverjir setið fastir í rúman sólarhring.

Þá er hið sama uppi á teningnum á Jótlandi í Danmörku þar sem ökumenn hafa setið í umferðarteppum nálægt Árósum síðan í gær vegna veðursins. Haft er eftir lögreglufólki í Svíþjóð og Danmörku að snjóruðningstæki hafi ekki haft undan við að ryðja snjóinn svo miklu magni hafi kyngt niður.

Þá hafa yfirvöld í Svíþjóð sagt að vörubílar sem setið hafi fastir á vegum verði fjarlægðir í síðasta lagi í fyrramálið. Veðuraðstæður séu hægt og bítandi að batna.

Í Finnlandi létust tveir, móðir og barnið hennar, í snjóflóði í Pyhäkuru þjóðgarði í norðurhluta Finnlands. Þau voru þar í skíðagöngu.

Óveðrið í Svíþjóð var gríðarlegt eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×