Erlent

Hvíta húsið segir fjár­muni og tíma á þrotum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur verið ákveðinn í afstöðu sinni um stuðning til handa Úkraínu en þingið er að reynast honum fjötur um fót.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur verið ákveðinn í afstöðu sinni um stuðning til handa Úkraínu en þingið er að reynast honum fjötur um fót. AP/Stephanie Scarbrough

Hvíta húsið segir peninga og tíma á þrotum þegar kemur að aðstoð við Úkraínumenn, ef bandaríska þingið gefur sig ekki og samþykkir frekari fjárhagsaðstoð og stuðning.

Þetta kemur fram í erindi fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins til þingsins, þar sem það er ítrekað að án aðgerða af hálfu þingsins muni Bandaríkjamenn ekki geta séð Úkraínumönnum fyrir fleiri vopnum og búnaði á nýju ári.

Meðal Repúblikana gætir aukinnar andstöðu við frekari fjárútlát vegna Úkraínu og þingið hefur ekki enn samþykkt 100 milljarða dala viðbótarframlag vegna Úkraínu sem Hvíta húsið lagði fram tillögu að í október.

Talsmenn Hvíta hússins segja útkomuna á vígvellinum í Úkraínu í húfi; að hætta aðstoð gæti greitt fyrir sigri Rússlands, sem væri ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Í erindinu segir að þetta sé ekki vandamál næsta árs, þingið verði að grípa til ráðstafana núna.

Mike Johnson, Repúblikani og forseti fulltrúadeildarinnar, sagði í síðustu viku að hann væri sannfærður um að frekari aðstoð til handa bæði Úkraínu og Ísrael yrði samþykkt en sagði um að ræða aðskilin mál.

Hann sagði ómögulegt að leyfa Vladimir Pútin Rússlandsforseta að „þramma yfir Evrópu“ en Repúblikanar vilja skilyrða áframhaldandi stuðning við Úkraínu við ákveðnar breytingar á landamærastefnu Bandaríkjanna, sem Demókratar hafa verið tregir til að samþykkja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×