Erlent

170 þúsund manns mót­mæla í Madríd

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Um 170 þúsundir manna marseruðu um Madríd í dag til að mótmæla sakaruppgjöf og nýrri ríkisstjórn.
Um 170 þúsundir manna marseruðu um Madríd í dag til að mótmæla sakaruppgjöf og nýrri ríkisstjórn. AP/Alicia Leon

Um 170 þúsund manns marseruðu um Madrídarborg í dag og mótmæltu sakaruppgjöf katalónskra aðskilnaðarsinna.

Mótmælin eru ein í röð mótmæla sem koma í kjölfar þess að Pedro Sánchez tryggði sér nægan stuðning til að vera áfram forsætisráðherra Spánar með aðstoð katalónskra og baskneskra aðskilnaðarflokka á spænska þinginu.

„Embætti forsætisráðherra Spánar má ekki kaupa og selja,“ segir Alberto Núñez Feijóo, leiðtogi hins íhaldssama Lýðflokks á mótmælafundi í dag sem tugir þúsunda sóttu. Reuters greinir frá.

Mikill fjöldi mótmælenda safnaðist saman á Puerta del Sol-torgi með líkneski af forsætisráðherranum. Þar kölluðu margir eftir því að Sánchez yrði fangelsaður og kölluðu hann svikara og meðvirkan hryðjuverkum.

„Valdarán með stórum stöfum“

Leiðtogi öfgahægriflokksins Vox, Santiago Abascal, lýsti samkomulagi forsætisráðherrans við katalónska aðskilnaðarflokka sem „valdaráni með stórum stöfum“ og sagði stöðuna sem upp er komin vera þá „viðkvæmustu í sögu spænskra stjórnmála síðustu fjörutíu árin.“

Sánchez hefur hvatt til „almennrar skynsemi“ og hefur beðið forsvarsmenn Lýðflokksins um að vera ekki að ýta undir frekari óeirðir.

Biður stjórnarandstöðu virða niðurstöður kosninga

„Ég bið þau að virða niðurstöður kosninga og réttmæti þeirrar ríkisstjórnar sem við munum brátt mynda. Ég bið þau vera hugrökk og hrinda frá sér öfgamönnum til hægri og beygja af braut þeirra í átt að tóminu. Við munum stjórna fyrir alla Spánverja, fyrir fjögur ár í viðbót af framförum og samkennd,“ sagði Sánchez í færslu á samfélagsmiðlinum X í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×