Erlent

Selenskí varar Úkraínu­menn við auknum á­rásum á inn­viði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskur hermaður við æfingar í Frakklandi.
Úkraínskur hermaður við æfingar í Frakklandi. AP/Laurent Cipriani

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur varað Úkraínumenn við auknar árásir Rússa á innviði í landinu nú þegar vetur gengur í garð. Hann segir herinn búinn undir sókn Rússa á austurvígstöðvunum.

Ummælin lét forsetinn falla í daglegu ávarpi sínu eftir fyrstu loftárásir Rússa á höfuðborgina Kænugarð í sjö vikur. 

Selenskí sagði landsmenn verða að búa sig undir auknar dróna- og loftárásir Rússa á innviði næstu misserin og að leggja yrði áherslu á varnir landsins og allt sem Úkraína gæti gert til að komast í gegnum veturinn. Þá þyrfti að auka getu hersins til að takast á við óvininn.

Síðasta vetur gerðu Rússar ítrekaðar árásir á orkuinnviði, sem leiddu oftsinnis til raforkuskorts. Orkumálaráðherrann German Galushchenko sagði á laugardag að Úkraínumenn byggju, að óbreyttu, að nægum orkubirgðum til að endast veturinn.

Því væri hins vegar ósvarað hvaða áhrif árásir Rússa gætu haft á stöðuna.

Forsetinn lofaði „hetjulega“ baráttu hermanna Úkraínu í Avdiivka, sem hafa sætt árásum og sókn Rússa frá því um miðjan október. Bærin er nú rústir einar. Talsmaður Úkraínuhers segir að dregið hafi úr bardögum á jörðu niðri um helgina en loftárásum fjölgað.

Harðir bardagar standa einnig yfir umhverfis Bakhmut, sem Rússar náðu á sitt vald í maí. Úkraínumenn hafa sótt fram á svæðinu og náð að frelsa fjölda þorpa í nágrenninu.

Þrír yfirmenn innan rússneska hersins eru sagðir hafa látist í sprengingu í Melitopol um helgina, sem hefur verið lýst sem „hefndaraðgerð“ af hálfu úkraínskra andspyrnuhópa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×