Erlent

Varnar­mála­ráð­herrann sem hvarf látinn taka pokann sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Li var varnarmálaráðherra í nokkra mánuði.
Li var varnarmálaráðherra í nokkra mánuði. AP/Andy Wong

Li Shangfu, varnarmálaráðherra Kína, hefur verið látinn fjúka en tveir mánuðir eru liðnir frá því að hann sást síðast opinberlega. Engar skýringar hafa verið gefnar á brotthvarfi hans né hefur verið greint frá því hver tekur við af honum.

Li er sá síðasti í röð háttsettra embættismanna með tengsl við herinn sem hafa verið látnir taka pokann sinn á síðustu misserum en utanríkisráðherrann Qin Gang var fjarlægður úr embætti í júlí síðastliðnum.

Qin og Li hafa einnig verið látnir víkja úr ríkisráðinu.

Boðað hefur verið til ráðstefnu er varðar varnarmál í þessari viku.

Reuters greindi frá því í september að Li sætti rannsókn vegna gruns um spillingu, meðal annars í tengslum við kaup á búnaði. Li sást síðast 29. ágúst á öryggisráðstefnu með fulltrúum Afríkuríkja.

Li hafði aðeins setið í stól varnarmálaráðherra í nokkra mánuði en hann tók við embættinu í mars.

Ráðherrann fyrrverandi sætti refsiaðgerðum af hálfu Bandaríkjanna sökum samnings milli Kína og Rússlands um kaup Kínverja á rússneskum vopnabúnaði. Aðgerðirnar eru sagðar hafa verið Li erfiðar en hann neitaði meðal annars að funda með Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrr á árinu.

Það vekur athygli að bæði Li og Qin, sem var utanríkisráðherra í aðeins sjö mánuði, voru báðir sagðir hafa vera nánir Xi Jinping forseta Kína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×