Veður

Snjóar á Hellis­heiði en ekki höfuð­borgar­svæðinu

Lovísa Arnardóttir og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Verktakar Vegagerðarinnar verða við störf í nótt og í fyrramálið og því ætti að vera greiðfært þrátt fyrir snjókomu. 
Verktakar Vegagerðarinnar verða við störf í nótt og í fyrramálið og því ætti að vera greiðfært þrátt fyrir snjókomu.  Vísir/Vilhelm

Búast má við snjókomu á Hellisheiði og í Þrengslum í nótt og í fyrramálið. Verktakar Vegagerðarinnar verða við störf í nótt og í fyrramálið. 

Veðrið heldur áfram að láta til sín taka næstu daga. Á morgun er von á talsverðri snjókomu suðvestanlands og enn ein gul viðvörunin hefur verið gefin út víðsvegar um landið.

„Þetta er snúið að eiga við þetta núna, þetta snemma haustsins,“ sagði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, í kvöldfréttunum í kvöld. Það væri úrkoma í kvöld og aðeins um þriggja stiga hiti.

„Það er útlit fyrir að með þessari lægð sem læðist að okkur úr vestri snjó dálítið á Hellisheiðinni, í Þrengslum og á heiðum hérna vestanlands,“ sagði Einar og að það myndi byrja að snjóa í nótt og héldi svo áfram í fyrramálið.

„Þetta fer svona ekkert yfir neitt hratt. Þetta læðist að okkur,“ segir Einar og að það gæti snjóað við Selfoss en að höfuðborgarsvæðið sleppi að öllum líkindum.

„Það er að segja svona allavega við sjávarmál. Það verði bara slydda og rigning.“

Einar segir að það muni snjóa drjúgt á leiðinni austur og að það geti orðið blindbylur en að verktakar Vegagerðarinnar verði við störf í nótt og í fyrramálið til að hreinsa aðalleiðir.

„Það er ekki eins og það fari allt í skrúfuna og verði ófært eins og skot, öðru nær.“

Spurður hvort að það sé kominn tími til að setja á vetrardekk segir Einar tilefni til þess ætli fólk sér að keyra á milli landshluta. 

Samkvæmt lögum má ekki setja nagladekk á fyrr en um miðjan mánuð en Lögreglan á Suðurlandi tilkynnti í dag að þau ætli ekki að sekta fólk á nagladekkjum í landshlutanum. 

Einar sagði þó ekki þörf á því á höfuðborgarsvæðinu og benti á að það ætti að hlýna og því yrði ekki þörf á því á höfuðborgarsvæðinu í bráð.


Tengdar fréttir

Veðrið gengur niður en hvessir aftur í nótt

Lægðin sem olli vonskuveðrinu hér í gær og nótt fjarlægist nú og stefnir á Noreg. Veðrið gengur því niður í dag, fyrst vestantil á landinu en þó verður enn allhvasst eða hvasst austast seint í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×