Erlent

Varnar­mála­ráð­herra Ísrael fyrir­skipar al­gjört um­sátur um Gaza

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar virða fyrir sér rústir Yassin-moskvunnar í al-Shati flóttamannabúðunum í Gaza-borg.
Íbúar virða fyrir sér rústir Yassin-moskvunnar í al-Shati flóttamannabúðunum í Gaza-borg. AP/Adel Hana

Varnarmálaráðherra Ísrael segist hafa fyrirskipað algjört umsátur um Gaza. Ekkert vatn, enginn matur, ekkert rafmagn, ekkert eldsneyti, er haft eftir honum í erlendum miðlum.

Ísraelsmenn hafa yfirráð yfir loft- og landhelginni yfir og við Gaza og geta þannig stjórnað flutningi aðfanga inn á svæðið. Þá ráða Egyptar yfir flutningi yfir landamæri þeirra að Gaza.

Loftvarnaflautur hafa hljómað í Jerúsalem og víðar í Ísrael í morgun. Nokkur fjöldi er sagður hafa særst í loftárásum frá Gaza. 

Fulltrúar Hamas segja fjóra ísraelska gísla og liðsmennina sem fönguðu þá hafa fallið í loftárásum Ísraelshers í gær. Þá greinir Al Jazeera frá því að tvær umfangsmiklar árásir hafi verið gerðar á Jabalia og al-Shati flóttamannabúðirnar. Tugir hafi verið fluttir á aðalsjúkrahúsið í Gaza-borg.

Josep Borrell Fontelles, framkvæmdastjóri utanríkismála hjá Evrópusambandinu, hefur boðað utanríkisráðherra aðildarríkja sambandsins til neyðarfundar á morgun. Stjórnvöld í Austurríki tilkynntu í gær að þau hefðu fallið frá fyrirætlaðri fjárhagsaðstoð til Palestínumanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×