Erlent

„Þetta verður langvinnt, erfitt og blóðugt“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálium, lagði mat á stöðuna í Ísrael í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálium, lagði mat á stöðuna í Ísrael í kvöldfréttum Stöðvar 2. vísir

Veruleg hætta er á því að átökin sem nú standa yfir í Ísrael og á Gaza-svæðinu muni dreifa sér víðar. Þetta segir Arnór Sigurjónsson sérfræðingur í varnarmálum. Innrás Ísrael á Gaza-svæðið sé óhjákvæmileg enda hafi yfirvöld þar heitið því að uppræta Hamas-samtökin.

Spurður hvers vegna Hamas-liðar stundi árásir á þessum tímapunkti segir Arnór að samtökin hafi á þessum tímapunkti þrjú meginmarkmið.

„Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir friðsamleg samskipti Ísrael við önnur arabaríki, þar á meðal Sádí-Arabíu. Taka gísla til fangaskipta. Og sameina arabaríkin, og jafnvel heiminn allan, í baráttunni gegn Ísrael, í þágu Palestínu-araba.“

Yfirferð yfir stöðuna í Ísrael, ásamt viðtali við Arnór má sjá hér að neðan. Viðtalið hefst þegar um fjórar mínútur eru liðnar af fréttinni.

Hann segir verulega hættu á því að átökin dreifi sér út fyrir átakasvæðið nú og nefnir að Bandaríkjamenn hafi sent herskip og herþotur á svæðið til að vera reiðubúnir því ef allt fer á versta veg.

Árás Hamas-liða kom Ísraelsmönnum í opna skjöldu og svo virðist sem að upplýsingaþjónusta hafi brugðist algjörlega.

„Þetta virðist vera aljgjört skipbrot leyniþjónustu Ísraelsmanna. Þetta virðist hafa komið Bandaríkjamönnum mjög á óvart líka. Það er eitthvað sem þarf að skoða betur í framtíðinni,“ segir Arnór og segir uppgjör verða að fara fram vegna þessa.

Innrás Ísraelsmanna á Gaza-svæðið sé óhjákvæmileg enda hafi Ísrael heitið því að uppræta Hamas. 

„Það gera þeir ekki nema að hafa full yfirráð yfir Gaza-svæðinu.“

„Þetta verður langvinnt, erfitt og blóðugt,“ sagði Arnór að lokum.


Tengdar fréttir

Vaktin: Að minnsta kosti 260 manns voru skotnir á tónlistarhátíð

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísrael hefur lýst yfir herlögum í landinu vegna stríðsins sem hófst þar í gærmorgun. Minnst sex hundruð Ísraelar hafa fallið í árásum Hamas og þrjú hundruð Palestínumenn fallið í gagnárásum Ísraela.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×