Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að reikna megi með austan fimm til þrettán metrum á sekúndu, en þrettán til átján í vindstrengjum syðst á landinu.
„Stöku skúrir eða él norðan- og austanlands. Rigning öðru hvoru á Suður- og Vesturlandi, en styttir upp þar síðdegis. Hiti í dag 2 til 9 stig, mildast á Suðurlandi.
Lægir víða á morgun og birtir upp, en stöku skúrir eða él með suður- og austurströndinni. Hiti 1 til 7 stig og frystir allvíða annað kvöld,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Austan- og norðaustan 3-10 m/s. Víða þurrt veður og bjart með köflum, en stöku skúrir á sunnanverðu landinu. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn, en víða næturfrost.
Á laugardag: Breytileg átt 3-8 og víða léttskýjað, en skýjað og sums staðar dálítil væta á Vesturlandi. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag: Gengur í suðvestan 8-13 og þykknar upp á vestanverðu landinu með súld og rigningu. Hægari vindur og léttskýjað austantil. Hlýnar heldur í veðri, hiti 3 til 8 stig síðdegis.
Á mánudag: Vestlæg átt 5-10 og dálítil riging, en þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum. Norðlægari um kvöldið með éljum norðantil á landinu, en þurrt syðra. Kólnandi veður.
Á þriðjudag: Norðan 10-18 með úrkomu á norðurhelmingi landsins, rigning nærri sjávarmáli, en snjókoma á heiðum. Þurrt um landið sunnanvert. Hiti 0 til 4 stig.