Íslenski boltinn

Fimm­tíu milljóna króna markið sem tryggði Vestra upp í Bestu deild

Aron Guðmundsson skrifar
Iker Hernandez fagnar markinu mikilvæga í úrslitaleiknum
Iker Hernandez fagnar markinu mikilvæga í úrslitaleiknum Vísir/Skjáskot

Vestri mun leika í Bestu deild karla í fót­bolta á næsta tíma­bili. Þetta varð ljóst eftir 1-0 sigur liðsins gegn Aftur­eldingu í fram­lengdum úr­slita­leik í um­spili Lengju­deildarinnar á laugar­daginn síðast­liðinn.

Leikurinn hefur fengið viður­nefnið 50 milljóna króna leikurinn en auk sætis í Bestu deildinni er talið að sigur­liðið í leiknum, í þessu til­felli Vestri, fái um 50 milljónir króna í sinn hlut.

Aftur­elding kom inn í úr­slita­leik laugar­dagsins sem lík­legra liðið til af­reka. Mos­fellingar enduðu í 2. sæti Lengju­deildarinnar á meðan að Vestri endaði í því fjórða.

Hvorugu liðinu tókst að finna net­möskvana í venju­legum leik­tíma á Laugar­dals­velli á laugar­daginn og því þurfti að grípa til fram­lengingar.

Þar reyndist vara­maðurinn Iker Hernandez Esqu­er­ro hetja Vestra­manna. Hann kom boltanum í netið á 103. mínútu með af­bragðs skoti eftir glæsi­lega stoð­sendingu frá Sergine Modou Fall.

Reyndist þetta markið sem tryggði Vestra Bestu deildar sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×