Um­fjöllun og við­töl: Fram - KA 1-0 | Fram fór lang­leiðina með að bjarga sér frá falli

Hjörvar Ólafsson skrifar
Þengill Orrason skoraði sigurmarkið í dag.
Þengill Orrason skoraði sigurmarkið í dag. Vísir/Hulda Margrét

Fram steig afar stórt skref í átt að því að tryggja sér veru í efstu deild í fótbolta karla með dýrmætum 1-0 sigri þegar liðið fékk KA í heimsókn í 26. og næststíðustu umferð deildarinnar á Framvöllinn í Úlfarsárdal í kvöld. Það var Þengill Orrason sem skoraði sigurmark Frammara í leiknum.

Úrslit dagsins í neðri hlutanum þýða að Fram er komið upp í áttunda sæti með 27 stig líkt og HK sem er sæti neðar þar sem liðið hefur lakari markatölu. Þar fyrir neðan er svo Fylkir með 26 stig og ÍBV er í næstneðsta sæti með 24 stig. 

Fram er síðan með sjö mörkum betri markatölu en ÍBV og því í góðri stöðu með að halda sæti sínu í deildinni fyrir lokaumferðina sem leikin verður um næstu helgi. 

Ragnar Sigurðsson og lærisveinar hans hjá Fram  eru í sterkri stöðu fyrir lokaumferðina. Vísir/Anton Brink

Ragnar: Mikilvægur sigur en þetta er ekki komið enn 

„Mér fannst það vera liðsheildin og baráttan sem skilaði þessum mikilvæga sigri í hús. Þrátt fyrir að þessi þrjú stig setji okkur í góða stöðu þá er þetta ekki komið enn og það eru enn sömu lið í fallbaráttu og voru fyrir þessa umferð," sagði Ragnar Sigurðsson, þjálfari Fram. 

„Við fengum fullt af færum þess að innsigla sigurinn en við náðum ekki að nýta þau. Þeir náðu að þrýsta okkur aðeins aftar þegar líða tók á leikinn en sköpuðu svo sem ekki nema eitt mjög gott færi sem ég man eftir allavega. Þetta var gríðarlega kærkominn sigur," sagði Ragnar enn fremur. 

„Viktor Bjarki fékk til dæmis nokkur færi sem hann hefði líklega klárað í leik með 2. flokki. Markið kom ekki núna en hann átti frábæra innkomu og ég er mjög ánægður með hann eins og bara allt liðið. Nú förum við í Árbæinn um næstu helgi og tryggjum þetta endanlega. Það verður sérstök stund fyrir mig ég viðurkenni það alveg þar sem Fylkir, mitt uppeldisfélag, gæti fallið þar," sagði hann um framhaldið. 

Hallgrímur: Vantaði ástríður og neista í mína menn

„Í fyrsta skipti í þessari úrslitakeppni sá ég ekki neista í leikmönnum mínum og það vantaði alla ástríðu í þetta í kvöld hjá okkur. Þegar þannig er þá er erfitt að vinna fótboltaleiki og því fór sem fór. Við áttum fína spilkafla í þessum leik en það var ekki nóg," sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA: 

„Það jákvæða er hins vegar að við erum að hreyfa liðið og það fengu ungir leikmenn spilmínútur og skiluðu sínu bara mjög vel. Það fer í bankann hjá þeim og mun koma okkar vel í framtíðinni. Þetta var ekki alslæmt en það vantaði þó töluvert upp á," sagði Hallgrímur á jákvæðari nótum. 

„Ég sagði við strákana inni í klefa að við þyrftum að finna andann aftur og klára þetta almennilega á móti HK í lokaumferðinni. Við viljum enda mótið með stæl og nú er það undir leikmönnum komið hverjnig þeir mæta til leiks," sagði hann um síðasta leik tímabilsins. 

Hallgrímur fannst töluvert vanta uppá hjá liði sínu. Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Fram?

Svo virtist sem Frammarar hefðu meira hungur til þess að sækja stigin þrjú enda liðið í harðri baráttu um að forðast fall úr deildinni. Liðin áttu bæði fína spilkafla úti á vellinum en leikmenn Fram voru grimmari í báðum vítateigum að þessu sinni. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Delphin Tshiembe og Þengill Orrason voru flottir í hjarta varnarinnar og Sigfús Árni Guðmundsson átti góðan leik í bakvarðarstöðunni. Viktor Bjarki Daðason átti sterka innkomu þrátt fyrir að hafa ekki náð að nýta færið sem hann skapaði. Viktor Bjarki sem er fæddur árið 2008 á bjarta framtíð fyrir sér. 

Eins og svo oft áður var Hallgrímur Mar Steingrímsson potturinn og pannan í sóknaraðgerðum KA-liðsins. Þá varði Steinþór Már Auðunsson nokkrum sinnum vel í marki norðanmann. 

Hvað gekk illa?

KA-mönnum gekk illa að finna glufur á þéttum varnarmúr Framliðsins og það vantaði áræðni á síðasta þriðjungi vallarins. Þá var færanýtingin ekki nógu góð hjá Frömmurum en það kom sem betur fer fyrir þá ekki að sök. 

Hvað gerist næst?

Fram mætir Fylki í Árbænum og KA fær HK í heimsókn á Akureyri í lokaumferð deildarinnar á laugardaginn eftir tæpa viku. Þar ráðast örlög Frammara sem og annarra liða sem eru enn í fallbaráttu. 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira