Erlent

Fjar­lægð­u flot­girð­ing­u í Suð­ur-Kín­a­haf­i

Samúel Karl Ólason skrifar
Skip kínversku strandgæslunnar í Suður-Kínahafi.
Skip kínversku strandgæslunnar í Suður-Kínahafi. AP/Aaron Favila

Yfirvöld á Filippseyjum segjast hafa fjarlægt flotgirðingu sem Kínverjar komu fyrir við vinsælar fiskislóðir í Suður-Kínahafi. Kínverjar höfðu komið girðingunni fyrir til að koma í veg fyrir að sjómenn frá Filippseyjum kæmust að Scarborough-rifi.

Áhöfn skips strandgæslu Kína sást koma girðingunni fyrir í gær en Ferdinand Marcos Jr, skipaði strandgæslu Filippseyja að fjarlægja girðinguna í dag, sem var gert.

„Flotgirðingin ógnaði sjómönnum og braut gegn alþjóðalögum. Hún takmarkaði einnig störf og lífsviðurværi filippseyskra sjómanna,“ sagði í yfirlýsingu frá strandgæslu Filippseyja, samkvæmt frétt Reuters.

Scarborough-rif er í um 108 sjómílna fjarlægð frá strandlengju Filippseyja en um 486 sjómílur frá meginlandi Kína.

Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og þar á meðal hafsvæðis ríkja eins og Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Filippseyjar kærðu Kína fyrir Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.

Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu og hafa þeir aldrei viðurkennt úrskurðinn. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði í dag að flotgirðingin hefði verið nauðsynleg þar sem skipi á vegum fiskistofu Filippseyja hefði verið siglt inn á það sem kallað er í yfirlýsingu „kínverskt hafsvæði“.

Talsmaður ráðuneytisins sagði Kína eiga „óyggjandi rétt“ á rifinu.

Hér að neðan má sjá myndefni frá AFP fréttaveitunni sem tekið var upp áður en flotgirðingin var fjarlægð af strandgæslu Filippseyja.

Frá 2017 hafa sjómenn frá bæði Kína og Filippseyjum veitt við rifið en núverandi stjórnvöld í Filippseyjum segjast ætla að grípa til aðgerða til að tryggja fullveldi ríkisins.

Árið 2016 sagði Alþjóðagerðadómurinn að Filippseyingar hefðu veitt fisk við Scarborough-rif í margar aldir og að fyrri lokanir Kínverja á svæðinu væru ólöglegar.

Yfirvöld á Filippseyjum segjast vera að íhuga að höfða nýtt mál gegn Kína vegna eyðileggingar kóralsrifja á hafsvæði ríkisins.


Tengdar fréttir

Reynir að lægja öldurnar í heim­sókn til Kína

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er mættur til Kína í opinbera heimsókn sem er ætlað að lægja öldurnar í samskiptum þjóðanna. Þetta er í fyrsta skipti sem bandarískur utanríkisráðherra heimsækir Kína í fimm ár.

Óttast kín­versk­ar eld­flaug­ar

Æðstu menn herafla Bandaríkjanna hafa áhyggjur af því að herstöðvar ríkisins í Kyrrahafinu séu berskjaldaðar gagnvart kínverskum eldflaugum. Unnið er að því að dreifa úr vopnum, vistaverum hermanna, stjórnstöðvum og öðrum hergögnum til að gera eldflaugaárásir erfiðari.

Saka kínverskan flugmann um „óþarflega ágenga“ hegðun

Forsvarsmenn herafla Bandaríkjanna í Indlands- og Kyrrahafi sökuðu kínverskan flugmann í dag um „óþarflega ágenga“ hegðun yfir Suður-Kínahafi. Kínverskur flugmaður flaug herþotu af gerðinni J-16 í veg bandarískrar eftirlitsvélar af gerðinni RC-135.

Vilj­a eig­in kjarn­ork­u­vopn af ótta við Norð­ur-Kór­e­u

Sífellt fleiri íbúar Suður-Kóreu eru þeirrar skoðunar að ríkið eigi að koma upp eigin kjarnorkuvopnum, til móts við vopn nágranna þeirra í Norður-Kóreu. Þá efast margir um að ríkið geti reitt sig á að Bandaríkjamenn komi þeim til varnar komi til stríðs á Kóreuskaganum.

Japanir óttast stríð og ætla að kaupa mikið magn vopna

Deilur um það hvernig fjármagna eigi umfangsmikla hernaðaruppbyggingu í Japan eru sagðar ógna stjórnarsamstarfinu þar í landi. Fumio Kishida, forsætisráðherra og leiðtogi Frjálslynda lýðræðisflokksins, vill fjármagna uppbygginguna með skattlagningu en sú áætlun er ekki vinsæl innan flokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.