Erlent

Aðskilnaðarsinnar í Nagorno-Karabakh gefast upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Aserar hafa gert umfangsmiklar árásir á Nagorno-Karabakh frá því í gærmorgun.
Aserar hafa gert umfangsmiklar árásir á Nagorno-Karabakh frá því í gærmorgun. AP/Siranush Sargsyan

Sveitir Armena í Nagorno-Karabakh hafa gefist upp fyrir Aserum, sem gerðu atlögu að héraðinu í gær. Vopnahlé var sett á klukkan níu í morgun, að íslenskum tíma, og eiga viðræður milli Armena í héraðinu og yfirvalda í Aserbaídsjan að eiga sér stað á morgun.

Aserar og Armenar hafa deilt um Nagorno-Karabakh um árabil og kom þar til mikilla átaka árið 2020. Aserar unnu þau átök á skömmum tíma. Héraðið er hluti af Aserbaídsjan en hefur verið stýrt af Armenum sem eru í miklum meirihluta íbúa þar, frá 1994 þegar sex ára stríði ríkjanna lauk.

Hersveitir Aserbaísdsjan réðust inn í héraðið í gærmorgun og hafa linnulaus átök og stórskotaliðsárásir staðið yfir síðan þá. Aserar sögðu að um and-hryðjuverkaaðgerð væri að ræða og sögðu aðskilnaðarsinna Armena hafa fellt tvö vegagerðarmenn og fjóra lögreglumenn með jarðsprengjum.

Aserar hétu því að hernaðaraðgerðinni yrði haldið áfram þar til aðskilnaðarsinnar í Nagorno-Karabakh legðu niður vopn og „ólöglegar hersveitir Armeníu“ gæfust upp.

Rússneskir friðargæsluliðar hafa verið í héraðinu frá 2020 og segja fjölmiðlar í Armeníu, samkvæmt AP fréttaveitunni, að Rússar hafi komið að viðræðunum.

Samkvæmt samkomulaginu eiga Armenar að leggja niður vopn og gefa frá sér öll þungavopn sem þeir eiga. Armenskir hermenn eiga að snúa aftur til Armeníu. Þá muni armenskir leiðtogar í héraðinu ræða við ráðamenn í Baku um það hvernig Nagorno-Karabakh verði sameinað Aserbaídsjan á grunni stjórnarskrár og laga ríkisins.

Fólk leitar skjóls gegn stórskotaliðsárásum í Stepankert, höfðuborg Nagorno-Karabakh.AP/Siranush Sargsyan


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.